131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Talsmaður neytenda.

18. mál
[16:24]

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að nota tækifærið og þakka þátttökuna í þessari umræðu um þingsályktunartillögu um stofnun embættis talsmanns neytenda. Eins og hv. þingmenn hafa komið inn á í sínum ræðum eru verkefnin ærin og brýn í þessum efnum.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rifjaði hér upp með okkur samsærin, sem hún svo kallaði, gegn neytendum, tryggingafélaganna, grænmetissalanna, olíufélaganna nú hið síðasta. Allt heitir þetta einu nafni ólöglegt samráð.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson taldi markmið málsins vera gott en hann var ekki sannfærður um að setja ætti á fót nýja stofnun. Vissulega eru það veigamikil rök hvort setja eigi á fót enn eina ríkisstofnunina. En mér segir svo hugur um að hér sé ekki um neina venjulega stofnun að ræða heldur þjónustuembætti við neytendur í landinu og því megi náttúrlega útfæra starfsemi þessa embættis með nýstárlegum hætti eins og ég kom inn á í ræðu minni hér fyrr.

Ég er sammála hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að svo sannarlega ber bæði að efla starf Neytendasamtakanna og einnig Samkeppnisstofnunar. Um það hafa þingmenn Samfylkingarinnar flutt margar ræður við ýmis tilefni á hinu háa Alþingi og á það skal minnt vegna Neytendasamtakanna að það gerist hvergi á Norðurlöndunum nema á Íslandi að meiri hluti þess fjár sem er notaður til reksturs Neytendasamtakanna komi frá félagsmönnum en ekki ríkinu. Því er einmitt öfugt farið á Norðurlöndunum þar sem ríkisstyrkt félagasamtök eru stór og öflug og það þykir eðlilegt og í raun hlutverk ríkisins að halda úti og styðja við frjáls félagasamtök með þessum hætti. Auk þess, eins og oft hefur verið rætt á hinu háa Alþingi, ber auðvitað að efla Samkeppnisstofnun til muna, þ.e. markaðssvið hennar. Þar hafa starfsmenn búið við fjársvelti sem hefur valdið því að það hefur tekið mánuði og ár að ljúka verkefnum sem hefðu þurft að taka skemmri tíma.

Frú forseti. Hlutverk ríkisvaldsins er nefnilega að stuðla að ákveðnu jafnvægi á hinum frjálsa markaði. Staða fyrirtækjanna, seljendanna og auglýsendanna, er eins og málum er háttað í dag einfaldlega miklu sterkari en staða neytendanna. Hlutverk ríkisvaldsins er að stuðla að betra jafnvægi þannig að hinn frjálsi markaður sé, eins og hv. þm. Kristrún Heimisdóttir orðaði það, knúinn áfram af neytendunum en ekki fyrirtækjunum. Aðeins þannig virkar hið frjálsa markaðshagkerfi eins og við viljum að það virki best, þ.e. með sterkum fyrirtækjum og sterkum neytendum. Eins og staðan er í dag á Íslandi er ójafnvægið þarna á milli óþolandi og þannig að við verðum að gera gangskör að því að bæta ástandið.

Frú forseti. Að lokum vil ég einnig taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar um hinar þrjár forsendur þess að embætti talsmanns neytenda sé — ég vil leyfa mér að orða það þannig — þess virði að setja það á fót, þ.e. að það hafi fullt sjálfstæði, skýrt valdsvið og að embættismaðurinn, talsmaðurinn, hafi vel skilgreint hæfi og hæfni til starfans, hafi sjálfstæðan fjárhag og hafi full ráð yfir sínu starfsliði. Ég kom ekki inn á það í framsöguræðu minni en það er rétt að samkvæmt þeim hugmyndum sem kynntar hafa verið frá viðskiptaráðuneytinu þá væri sá talsmaður sem lagt er til að taki til starfa samkvæmt hugmyndum hæstv. viðskiptaráðherra í raun bara venjulegur starfsmaður í ríkisstofnun sem heitir Neytendastofa. Það held ég að hún eigi að heita. En það er ekki það sem við í Samfylkingunni erum að tala um. Við viljum sjálfstæðan öflugan talsmann neytenda sem hefur fullt umboð til þess að leiðbeina, lögsækja ef þörf krefur, og vera í því hlutverki á hinum frjálsa markaði að hafa tækin og forsendurnar til þess að tala máli neytenda á Íslandi.