131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

28. mál
[17:05]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hér kemur enn eitt málið í dag frá stjórnarandstöðunni. Auðvitað er synd að ekki skuli vera fleiri stjórnarþingmenn, ráðherrar eða nefndarformenn til staðar í þingsal til að hlýða á mál okkar og taka þátt í umræðunni en þetta eru örlög okkar stjórnarandstöðuþingmanna. Við megum búa við þetta. Það væri gaman að sjá þinghaldið ef stjórnarandstaðan legði ekki fram nein mál, ríkisstjórnin þyrfti að halda uppi þinghaldinu og halda uppi umræðunni um stjórnarfrumvörpin. Þau stjórnarfrumvörp sem komin eru fram á þessu þingi mundu ekki nægja lengi í umræður eða þingfundahald ef því væri að skipta.

Hér mæli ég, frú forseti, fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar í annað sinn. Þessa tillögu flutti ég nokkurn veginn óbreytta á síðasta löggjafarþingi. Þá var hún send út til umsagnar. Eru komnar þó nokkrar umsagnir um hana og mun ég í máli mínu fara að nokkru yfir þær.

Það er þó merkilegt við þessa þingsályktunartillögu, frú forseti, að hún er flutt af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Þeir þingmenn eiga það sameiginlegt að sitja allir í umhverfisnefnd Alþingis. Þetta eru auk mín hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Gunnar Birgisson, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson. Hér tel ég vera um að ræða tillögu sem á sér breiðan pólitískan stuðning og ég treysti því sannarlega að þegar samgöngunefnd fær þessa tillögu til umfjöllunar öðru sinni taki hún hana til jákvæðrar skoðunar með þetta í huga og taki einmitt einnig mið af þeim jákvæðu umsögnum sem bárust á síðasta löggjafarþingi en nefndinni vannst ekki tími til að fara yfir þá.

Tillögutextinn felur það í sér að Alþingi álykti að ríkisstjórninni verði falið að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar verði að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautir verði sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skal tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skal gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli.

Að lokum segir í þessum tillögutexta að samgönguráðherra eigi að leggja fyrir Alþingi frumvarp í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar eigi síðar en ári eftir samþykkt tillögunnar.

Eins og ég sagði, frú forseti, fengum við nokkuð margar umsagnir um þetta mál á síðasta löggjafarþingi. Þar var mjög jákvætt tekið í það. Þetta voru aðilar eins og Árvekni (átaksverkefni um slysavarnir barna og unglinga), Eyþing, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Landssamtök hjólreiðamanna, Landvernd, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðarráð og Umferðarstofa.

Það var ýmis fróðleikur í þessum umsögnum og mig langar að nota tækifærið, frú forseti, og fara aðeins yfir það sem segir í umsögn Íslenska fjallahjólaklúbbsins. Hann fagnaði mjög þingsályktunartillögunni sem eðlilegt má teljast því að Íslenski fjallahjólaklúbburinn er skipaður öflugu fólki sem notar hjólin sem samgöngutæki og hjólar í hvernig veðri og hvernig færð sem er, hefur verið til mikillar fyrirmyndar í þessum efnum og hefur tekið virkan þátt í allri umræðu um umferðarmál, umferðaröryggismál ekki síst, á síðustu missirum. Það hefur Hjólreiðafélag Reykjavíkur gert líka og Landssamtök hjólreiðamanna. Þetta eru allt félög og samtök sem hafa verið í broddi fylkingar í þessum efnum.

Íslenski fjallahjólaklúbburinn telur hjólreiðar vera raunhæfan kost í samgöngumálum okkar Íslendinga. Það vanti bara aðstöðuna. Vilji fólksins sé til staðar og það sé ekki ásættanlegt fyrir okkur sem erum íbúar í þessu kyrrsetusamfélagi að við skulum ekki geta notað hjólin okkar sem skyldi sem samgöngutæki. Þau segja að þetta hljóti að vera vænlegur kostur, jafnt fyrir almenning sem þarf á því að halda að hreyfa sig — minnst 45–60 mínútur á dag segir í öllum skýrslum og heilbrigðisáætlunum sem ég hef lesið um þau mál — en ekki síður vænlegur kostur fyrir stjórnvöld því að auðvitað er þetta í alla staði miklu ódýrari samgöngumáti og hagkvæmari út frá öllum efnahagslegum mælikvörðum en þessi ótrúlegi einkabílismi sem ræður ríkjum í umferðinni hér.

Fjallahjólaklúbburinn segir öll umferðamannvirki vera dýr og umferð bíla svo mikla að það horfi til stórvandræða. Það sé erfitt fyrir fólk að komast á milli staða á höfuðborgarsvæðinu og svo telja þau upp nokkur atriði sem vert sé fyrir nefndina að taka tillit til þegar um málið verður fjallað þar. Þar vill Íslenski fjallahjólaklúbburinn fyrst nefna að ekkert hafi verið hugsað fyrir umferð hjólandi vegfarenda milli Keflavíkur og Reykjavíkur og ekki heldur í kringum Seyðisfjörð sem sé afar hvimleitt þar sem við fáum í auknum mæli ferðamenn hingað til landsins sem noti hjólin sem ferðamáta og því sé nauðsynlegt að bæta við þeim möguleikum fólks að hjóla frá Keflavík og hingað til Reykjavíkur og ekki síður frá Seyðisfirði inn á þjóðvegakerfið. Það vantar líka að gera ráð fyrir hjólandi fólki á vegöxlum á landsbyggðinni, t.d. við breikkun vega og nýbyggingar brúa. Ég minnist þess að hæstv. samgönguráðherra sagði það beinlínis í ræðu fyrir tveimur árum eða svo að ekki væri ætlast til þess að hjólað væri á vegöxlunum. Það var í umræðu um Reykjanesbraut og breikkun hennar.

Íslenski fjallahjólaklúbburinn segir ófremdarástand ríkja og stórhættulegt að fara á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Einnig segir hann ófremdarástand ríkja varðandi merkingar, það vanti allar merkingar á hjólreiðastíga og sömuleiðis þurfi að skilgreina hver ábyrgð sé á lagningu þeirra, bæði í þéttbýli og utan þess. Það þarf sömuleiðis, segja þau, að taka tillit til fjölda bíla á dag og umferðarhraða í þessum efnum og gera síðan staðla fyrir hjólavegi.

Þetta eru þau tæknilegu atriði sem fagfólkið hefur bent á í umsögnum sínum og kemur auðvitað til með að koma upp á borð samgöngunefndar þegar þar að kemur.

Umferðarráð gefur líka mjög jákvæða umsögn um málið og tekur undir nauðsyn þess að mörkuð verði stefna um hönnun og merkingu hjólreiðabrauta í þéttbýli og dreifbýli og segir að slíkt geti án efa orðið lóð á vogarskálar aukins umferðaröryggis. Stjórnin er því sammála að aukið tillit verði tekið til hjólreiðamanna við hönnun nýrra mannvirkja og að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í samgöngumálum hér á landi.

Þetta er alveg sammerkt með öllum þeim sem gefa hér umsagnir. Það er kominn tími til að við efnum og uppfyllum þær samgönguáætlanir sem við höfum samþykkt í þessum sal og hæstv. ríkisstjórn hefur talað fyrir með hæstv. samgönguráðherra í broddi fylkingar en það eru áætlanir okkar um sjálfbærar samgöngur. Ég held því fram að þessi tillaga sé í fullu samræmi við alla stefnumörkun sem í þessum sal hefur farið fram og á vettvangi annarra sem koma að umferðarmálum í landinu. Ég tel vera fullan samhljóm í tillögunni og skuldbindingum Íslendinga á alþjóðavettvangi hvað þetta málefni varðar. Nægir þar að nefna áætlanir um sjálfbær Norðurlönd.

Við höfum nýsamþykkta stefnu fyrir Norðurlönd um sjálfbæra þróun. Hún var gefin út 2001, geri ég ráð fyrir, og hún hefur hlotið sérstakt samþykki á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Þar er lögð mjög mikil áhersla á þessa þætti. Umferðaröryggi verður að hafa í hávegum og umferðaröryggi hjólreiðafólks verður að halda í heiðri. Gera þarf sérstakar áætlanir hvað það varðar því að öryggisleysi í umferðinni hefur, eins og allir vita, letjandi áhrif á notkun þessara samgönguhátta og það má segja að íslensk stjórnvöld hafi ekki sem skyldi hugað að öryggi hjólreiðafólks. Stofnbrautakerfi eins og það sem hér er mælt fyrir mundi að sjálfsögðu bæta þar talsvert úr.

Saga þessa máls er orðin nokkuð löng. Þegar vegalögum var síðast breytt á 125. löggjafarþingi var það gert með stjórnarfrumvarpi sem fjallaði um reiðvegi og girðingar. Þegar það mál var til umfjöllunar í samgöngunefnd kom upp sú tillaga að kannski ætti líka að setja hjólreiðastíga inn í vegalögin. Eftir að þau mál komu til umfjöllunar í samgöngunefnd á sínum tíma voru hjólreiðastígar settir inn í vegalögin. En þar eru þeir eingöngu nefndir sem fyrirbæri í vegakerfinu, algerlega án rökstuðnings eða áætlunar um hvernig hjólreiðastígum verði fyrir komið eða hver ætti að bera fjárhagslega ábyrgð á að leggja þá. Þeir fóru því nánast munaðarlausir inn í vegalög og hafa verið munaðarlausir í kerfinu síðan. Þeir hafa alls ekki sambærilega heimild eða skilgreiningu á við þá sem reiðvegir hafa í vegalögum. Það er sannarlega kominn tími til að bæta þar um betur og gera hjólreiðastígunum jafnhátt undir höfði í vegalögum og reiðvegum.

Þannig hefur málið þróast nokkuð í áranna rás. Fluttar hafa verið sambærilegar tillögur við þessa en nú er svo komið að fram er komin tillaga sem á stuðning í öllum stjórnmálaflokkum og er bæði rökstudd með stefnu stjórnvalda í samgöngumálum og alþjóðasamningum sem við erum aðilar að.

Það má náttúrlega nefna í framhjáhlaupi hversu sjálfsagt er að horfa til hjólreiða sem samgöngumáta þegar losunarmálin, sem eru nú ofarlega á baugi, eru til umræðu. Ekki losum við gróðurhúsalofttegundir við að nota hjól sem samgöngutæki. Við flutningsmenn tillögunnar teljum að málið gæti verið þungt lóð á vogarskálarnar í átt til sjálfbærra samgangna og til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.

Sjálfbærar samgöngur eru til umræðu alls staðar í nágrannalöndum okkar, ekki hvað síst í tengslum við fyrrnefnda Kyoto-bókun. Það er því nauðsynlegt að Íslendingar gangi fram fyrir skjöldu, sýni að þeir séu ábyrgir gerða sinna og viti hvað það þýðir að undirrita sáttmála á borð við Kyoto-sáttmálann eða Kyoto-bókunina. Það er ekki hægt að gera það bara í sunnudagafötunum og ætla svo ekki að framfylgja þeim ákvæðum eða gera neitt til að framfylgja þeim ákvæðum sem bókunin hefur að geyma.

Það er líka kominn tími til að við hættum að flokka hjólreiðar eingöngu með útivist og heilsusamlegri hreyfingu. Hjólin eru framleidd sem samgöngutæki. Fólk vill nota þau sem samgöngutæki. Það sem upp á vantar er að hjólareiðastígarnir séu þannig úr garði gerðir að fólk geti notað hjól sem samgöngutæki.

Ég óska eftir því, frú forseti, að að lokinni fyrri umræðu um þessa tillögu verði henni vísað til síðari umræðu og samgöngunefndar til umfjöllunar.