131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

28. mál
[17:20]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa spurningu.

Ég geri ekki ráð fyrir því í hugmyndum mínum um sjálfbærar samgöngur að hjólreiðarnar eða hjólreiðafólk eigi að standa straum af kostnaði við uppbyggingu þessara mannvirkja. Ég tel hins vegar sjálfsagt að ráðast í verkið og tel að á alþjóðavettvangi höfum við skuldbundið okkur til að búa til vettvang fyrir hjólreiðafólk innan samgöngukerfisins. Sú uppbygging sparar kostnað á öðrum sviðum. Hún dregur úr kostnaði við umferðarslys og dregur úr kostnaði af sliti vega. Það dregur úr kostnaði við ótal aðra þætti að setja fleiri hjólreiðamenn út á göturnar.

Að mínu mati eiga hjólreiðamenn að vera á frímiða í samgöngukerfinu. Öll hin neikvæðu áhrif bílaumferðar eru þekkt og þau eru þess eðlis að það er ekki óeðlilegt að bensínið sé skattlagt eða umferð skattlögð til að standa að hluta til straum af kostnaði við samgöngur. En við vitum líka að það er ekki einhlítt í okkar samgöngukerfi, að allir vegir á Íslandi séu byggðir fyrir það sem umferðin um viðkomandi veg greiðir eða hlutdeild þessarar viðkomandi umferðar. (MÁ: Eins og vegirnir á Vestfjörðum.) Já, vegirnir á Vestfjörðum eða hvar sem er á landsbyggðinni eru greiddir úr sameiginlegum sjóðum okkar. Auðvitað greiðir umferðin á höfuðborgarsvæðinu stóran hluta af vegalagningu úti á landi. Við vitum það og um það hefur ríkt ákveðið samkomulag. En það er kannski ekki samkomulag sem á að gilda um aldur og ævi og ekki endilega sjálfgefið að sú skipting verði ævinlega til staðar.

Hvað svo sem um bílaumferðina má segja og kostnaðinn sem umferðarmannvirkin okkar útheimta vil ég að það sé alveg skýrt samkvæmt þessari tillögu að hjólreiðafólkið eigi að fá frímiða í umferðinni vegna þess að það dregur umtalsvert úr kostnaði á öðrum sviðum.