131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar.

28. mál
[17:26]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér er ánægja að leggja orð í þennan belg, þó aðallega til að fagna þeirri tillögu sem hér er fram komin í annað skipti svo ég muni eftir en hún á sér væntanlega einhverja forvera eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir rakti í ræðu sinni.

Hjólreiðar hafa aukist mjög hin síðari ár á Íslandi sem annars staðar. Eftir að fyrsta skeiði borgartíma lauk voru þær einkum barna og unglinga. Í mínu ungdæmi og þeirra sem hér eru staddir, hygg ég, var varla sá fullorðinn maður sem fór upp á hjólhest án þess að það þætti undarlegt eða hann eitthvað undarlegur.

Nú hefur þetta breyst eins og háttvirtur 1. flutningsmaður rakti. Það er ekki aðeins um það að ræða að menn hafi vegna heilsubyltingarinnar hér á síðustu árum, á síðustu 15–20 árum, tamið sér hjólreiðar sem íþrótt eða sem heilsuræktaraðferð heldur eru þær einnig samgöngutæki fyrir vaxandi hóp fólks. Hjólin nota menn aðallega á styttri leiðum innan bæjar en einnig, hinir djörfustu og framsýnustu, á milli borgarhverfa og jafnvel á milli bæja og héraða. Þetta á við um Íslendinga en einnig ferðamenn, sem er athyglisvert fyrir þingheim og kannski einkum hv. 4. þm. Norðvest., sem einmitt er formaður Ferðamálaráðs.

Ferðamennska á reiðhjólum er sífellt að aukast og er mjög algeng aðferð í Evrópu, Mið-Evrópu og Suður-Evrópu sem jafnvel Íslendingar fara utan til þess að stunda. En þessi ferðamáti er líka að aukast hér og hjólreiðar um landið gætu, ef fram yrði fylgt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og öðrum af því tagi, orðið einn kosturinn í ferðamennsku hér í framtíðinni. Þetta eru ekki endilega puttalingar, sem menn tala um með nokkrum hroka, eða einhverjir fátæklingar. Þetta getur einmitt verið vel stöndugt millistéttarfólk sem kýs að eyða peningunum sínum með öðrum hætti í sumarfríum en að kosta til mikilla ferða á bílum, eða gera þetta meðfram.

Ein af ástæðunum fyrir því að hjólreiðar hafa getað aukist hér í Reykjavík er sú að undir forustu Reykjavíkurlistans hefur orðið gjörbreyting á hjólreiðastígunum í borginni. Jafnvel þótt þeim finnist ekki mikið um sem hafa verið í Kaupmannahöfn eða á öðrum slíkum stöðum þá er þetta mikill munur frá því sem áður var. Stígakerfið í Reykjavík er eitt af því sem telja má til á árangurslista borgaryfirvalda og almennings, borgarbúa, síðustu tíu árin.

Menn þekkja hins vegar að hjólreiðar fara ekki vel saman við aðra umferð. Auðvitað leita menn ákveðinnar málamiðlunar og lausna í þeim efnum. En þeir kannast við það, sem hafa stigið upp á hjólhest, að hjólreiðar fara ekki vel saman við bifreiðaumferð þar sem hún er mest. Það er ekki þægilegt að vera á hjóli á Miklubrautinni þótt það gangi betur á minni götum. Þeir sem reynt hafa við Vesturlandsveginn vita að það er ekki heiglum hent að fást við hann þegar hann er í góðu formi.

Það er raunar ekki almennilegt heldur að stilla saman hjólreiðamönnum og gangandi fólki þó að það hafi þurft að gera t.d. á stígunum í Reykjavík með ákveðnum málamiðlunum. Það vill halla á hina gangandi sem stundum hrökkva undan ógætilegum riddurum reiðhjólsins. Þannig að þó að ekki verði á allt kosið er æskilegast að hjólreiðastígarnir séu einir og sér, fyrir reiðhjól eingöngu, þó að ekki sé hægt að gera þær kröfur miðað við ástandið hér.

Ég rakti hvernig þessi mál standa í Reykjavík. Ég þekki ekki vel til annarra sveitarfélaga en ég hygg að Reykjavík standi einna fremst í þessu. Sjálfsagt eru þau ýmis úti á landsbyggðinni sem standa sig vel. En það er athyglisvert að meðan hjólreiðaaðstaða batnar í Reykjavík og vonandi víðar í sveitarfélögunum þá er það öfugt undir landstjórninni því þar versnar í raun og veru aðstaða hjólreiðarmanna með því að þeim er ekki sinnt þegar vegir eru gerðir betri. Tvö dæmi úr framförum síðustu ára sem hv. framsögumaður rakti að nokkru má nefna um það, annars vegar er leiðin til Keflavíkur og hins vegar eru Hvalfjarðargöngin þar sem hjólreiðamönnum er í raun og veru gert að fara annaðhvort lengri leiðina sem tekur nokkuð drjúgan tíma fyrir hjólreiðamann eða þá að sníkja sér með einhverjum hætti far sem yfirvöldin gera ekki ráð fyrir í gegnum Hvalfjarðargöngin.

Ég mæli með samþykkt þessarar tillögu og vonast til að af henni verði. Ég sé að þar hafa safnast saman menn úr mörgum flokkum og ég held að við ættum að geta gert þetta. Margt stuðlar að því og þar á meðal auðvitað þau rök sem nú verða æ sýnilegri og augljósari í ljósi loftslagsbreytinganna og skuldbindinga okkar gagnvart Kyoto-samkomulaginu sem nú er að ganga í gildi og þó að þar sé íslenskt ákvæði losar það okkur ekki undan því að hugsa til lengri tíma en þeirra nokkurra ára sem íslenska ákvæðið er fast í hendi.

Ég vil segja aðeins út af hugleiðingum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að sjálfsögðu réttmætum, um það hver eigi að kosta þessa hluti — nefndin mundi væntanlega ræða um það líka — að í framtíðinni kemur til greina ýmisleg fjármögnun í því skyni. Það kann að verða staðan eftir nokkur ár þegar settar verða upp verksmiðjur sem ganga á gróðurhúsalofttegundir að þær þurfi að kaupa sér þann kvóta sem um ræðir. Menn hafa talað um að slíkar verksmiðjur gætu að einhverju leyti bætt upp mengandi starfsemi sína með því að rækta skóg og kannski verður reyndin sú þegar ég og hv. 4. þm. Norðvest. erum komnir á efri ár að þá muni álverksmiðjurnar borga okkur fyrir að stunda hjólreiðar.