131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Starfsmenn Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli.

199. mál
[13:40]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér komu fram áhugaverðar upplýsingar í svari hæstv. utanríkisráðherra við þeirri fyrirspurn sem hér liggur fyrir. 20% samdráttur á þessum tíma hjá íslenskum starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli á sama tíma og hermönnum fækkar hlutfallslega minna og bandarískum starfsmönnum enn minna hlutfallslega en íslenskum starfsmönnum svo munar meira en helming.

Upplýsingarnar sýna okkur að íslenskum starfsmönnum hefur fækkað um 193 eða rúm 20%. Aftur á móti hefur erlendum starfsmönnum eða bandarískum starfsmönnum varnarliðsins fækkað um sjö eða rétt í kringum 6%.

Það gengur ekki, frú forseti, að við stöndum hér ár eftir ár og veltum fyrir okkur hvað er að gerast á Keflavíkurflugvelli og að við fáum alltaf þau svör að það sé ekkert að gerast, en þegar svörin eru skoðuð betur aftur í tímann kemur í ljós að svo virðist sem íslensk yfirvöld hafi ekki hugmynd um hvað þarna er að gerast.