131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Kynbundið ofbeldi.

170. mál
[14:36]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er:

1. Hvernig verður brugðist við tilmælum eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda varðandi ofbeldisbrot gegn konum?

2. Má vænta endurskoðunar á ákvæðum almennra hegningarlaga er varða heimilisofbeldi og annað kynbundið ofbeldi?

Nefnd sú sem vísað er til í fyrirspurninni starfar samkvæmt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem fullgiltur var af Íslands hálfu árið 1979. Aðildarríki samningsins skila reglulega skýrslum til nefndarinnar um framkvæmd samningsins á landsvísu. Ísland skilaði sinni þriðju skýrslu árið 2001 og var hún tekin fyrir af nefndinni í maí 2003. Fulltrúar Íslands kynntu skýrsluna fyrir nefndarmönnum og svöruðu spurningum þeirra. Í lok athugasemda nefndarinnar dags. 23. maí 2003 hvetur nefndin Ísland til að taka upp sérlöggjöf um heimilisofbeldi en Íslandi ber að skila næstu skýrslu til nefndarinnar árið 2008 og mun þá svara athugasemdum nefndarinnar.

Í tilefni af fyrirspurninni er rétt að rifja upp að í tæpan áratug hafa málefni er varða heimilisofbeldi skipað veigamikinn sess í störfum dómsmálaráðuneytisins. Dómsmálaráðherra skipaði árið 1995 nefnd til að kanna umfang heimilisofbeldis hér á landi og voru niðurstöður rannsóknar nefndarinnar birtar í skýrslu árið 1997. Í framhaldi af því skipaði þáverandi dómsmálaráðherra þrjár nefndir til að kanna meðferð mála þessara í dómskerfinu hjá lögreglu og til að gera tillögur um forvarnaaðgerðir um hjálparúrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis og um meðferðarúrræði fyrir gerendur.

Nefndirnar skiluðu skýrslum sínum og tillögum vorið 1998. Allar framangreindar skýrslur voru kynntar Alþingi. Í skýrslunum voru lagðar fram tillögur til nauðsynlegra umbóta vegna heimilisofbeldis, þar á meðal tillögur um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf. Engar tillögur voru lagðar fram um sérrefsilöggjöf vegna heimilisofbeldis.

Margar af tillögum nefndanna hafa náð fram að ganga, sbr. lög 36/1999, um breyting á lögum um meðferð opinberra mála sem bæta réttarstöðu brotaþola, lög nr. 39/2000, um breyting á almennum hegningarlögum, sem lögfesta ákvæði um vitnavernd, og lagaákvæði um nálgunarbann, sbr. lög nr. 94/2000.

Á vettvangi dómsmálaráðuneytisins er nú enn hugað að inntaki ákvæða almennra hegningarlaga og laga um meðferð opinberra mála þegar kemur að því að rannsaka, ákæra og dæma heimilisofbeldi. Ofbeldið sem slíkt er vitaskuld refsivert. Það greinir hins vegar heimilisofbeldi frá öðrum tegundum ofbeldis að þolandi sætir slíkri kúgun af hálfu brotamanns að örðugt getur reynst að kæra verknaðinn til lögreglu. Ráðuneytið mun kanna sérstaklega hvort setja beri verklagsreglur um kvaðningu réttargæslumanns þegar fórnarlamb heimilisofbeldis leitar til bráðamóttöku sjúkrahúsa.

Athugun dómsmálaráðuneytisins byggist á fyrirliggjandi skýrslum og gögnum ásamt viðtölum við þá sem til málaflokksins þekkja. Við mat á refsilöggjöfinni er mikilvægt að hafa í huga að ofbeldi er þegar refsiverður verknaður og alls ekki víst að sérákvæði um heimilisofbeldi leysi nokkurn vanda. Öðru máli gæti gegnt um þætti er varða rannsókn heimilisofbeldis, þ.e. ákvæði í lögum um meðferð opinberra mál.

Ég bind vonir við að unnt sé að finna úrbætur til að taka á þessum málum hvað réttarvörslukerfið varðar. Félagsleg úrræði og almenn fræðsla skipta þó ekki síður máli en refsiúrræði þegar um þessi viðkvæmu mál er rætt.