131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Kynbundið ofbeldi.

170. mál
[14:42]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við þessum fyrirspurnum mínum. Mér þykir sérstaklega ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra skuli ætla að láta kanna það hvort skipa skuli réttargæslumann í hvert sinn sem fórnarlömb heimilisofbeldis leita til slysavarðstofu eða neyðarmóttöku eða þeirra stofnana sem gera má ráð fyrir að þessi fórnarlömb leiti til. Mér þykir ánægulegt að heyra að hæstv. ráðherra skuli vilja fara yfir framkvæmd þessara reglna sem við nú búum við og athuga hvort þar sé hægt að gera betur. Hér er auðvitað um mjög alvarleg brot að ræða og afleiðingar heimilisofbeldis eru svo alvarlegar og koma svo víða niður á saklausu fólki að það er nauðsynlegt fyrir okkur að skoða þessi mál gaumgæfilega á hverjum tíma.

Það er talið að á hverju ári leiti 140 þolendur til slysavarðstofu vegna heimilisofbeldis. Þar sem þessi brot eru með þeim hætti að það er erfitt að fjalla um þau og erfitt að höndla þau er mjög nauðsynlegt að öll framkvæmd reglna okkar sé með þeim hætti að réttur þessa fólks sé tryggður og réttarstaða þess örugg.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra að auðvitað hafa verið gerðar ýmsar úrbætur, bæði félagslegar og sömuleiðis úrbætur í lögum. Samt sem áður er alveg ljóst að við þurfum að standa betur þessa vakt. Ég tel nauðsynlegt að þingið, allir alþingismenn, bæði stjórn og stjórnarandstaða, taki saman höndum og geri þær bragarbætur, þær úrbætur sem nauðsynlegar eru í þessum efnum, svoleiðis að gera megi allt sem hægt er til að lágmarka þann skaða sem þessi alvarlegu ofbeldisbrot valda fólki.