131. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2004.

Árásir á íslenska starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Kabúl í Afganistan.

[15:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Árið 1994 sendum við Íslendingar fyrstu friðargæsluliðana á vettvangi til Bosníu-Hersegóvínu. Þá sendum við lækna og annað hjúkrunarfólk sem stundaði hjálparstarf, mannúðarstarf, meðal nauðstaddra íbúa. Það fólk starfaði reyndar undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Nú erum við búin að koma okkur upp her — her sem starfar undir merkjum hernaðarbandalagsins NATO í Kabúl í Afganistan, meira að segja í verkefnum sem hinar bandalagsþjóðirnar voru tregar til að taka að sér. Þá spratt fram hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, og bauð fram íslenska karlmenn, lét færa þá í hermannabúninga og borgaði undir þá ferðir til Noregs svo að þeir gætu lært vopnaburð sem við hér heima héldum í einfeldni okkar að væri bara spurning um að kenna þeim að meðhöndla skammbyssur. Nei, hríðskotarifflar skyldu það vera. Svo fengu þessir íslensku karlmenn offisera- og majoratitla og voru sendir til Afganistans með byssubranda og borðalagðar húfur til að byggja upp herflugvöll fyrir NATO.

Nú hafa þessir íslensku karlmenn orðið fyrir árás, fyrstu árásinni sem íslenskir friðargæsluliðar verða fyrir á erlendri grund í einu aumkunarverðasta stríði heimssögunnar, stríði Bandaríkjastjórnar gegn hryðjuverkum. Hæstv. utanríkisráðherra svarar því aðspurður í þessari umræðu að réttarstaða þessara íslensku karlmanna á þessari erlendu grund sé staða hermanna.

En við lítum á þá sem friðargæsluliða, sagði hæstv. utanríkisráðherra.

Frú forseti. Er ekki um slíkan tvískinnung að ræða að hér verði að taka mál öðrum tökum en lítil utandagskrárumræða á Alþingi getur gert?

Hæstv. utanríkisráðherra segir að á árás á friðargæsluliðana okkar sé litið eins og árás á afganskan almenning.

Hæstv. forseti. Gerð var árás á friðargæsluliðana íslensku vegna þess að þeir eru hermenn. Þeir líta út eins og hermenn — og þeir eru hermenn. Þessi árás kostaði saklausa borgara lífið í Afganistan.