131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:43]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Eins og hefur komið fram í þessum umræðum ríkir breið samstaða hjá þeim sem hafa tjáð sig um þetta ágæta frumvarp og menn telja almennt að það sé til mikilla bóta. Það hefur líka komið fram, sem ég vil nefna sérstaklega, að stjórnarandstaðan hefur látið liggja að því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji Íbúðalánasjóð út af markaði, hefur vænt hann um það, en það er alveg ljóst að svo er alls ekki miðað við ræðuna sem hv. þm. Böðvar Jónsson hélt áðan. Það sem ég heyrði af ræðu hans var að hann fullyrti að Íbúðalánasjóður mundi verða fastur í sessi lengi, um nokkra framtíð eða í einhver ár, og því er alveg ljóst að þessi fulltrúi Sjálfstæðisflokksins telur að Íbúðalánasjóður hafi mjög miklu hlutverki að gegna.

Það hefur líka verið breið samstaða milli allra stjórnmálaflokka á Íslandi um að standa vörð um það meginmarkmið að íbúarnir geti búið við öryggi í húsnæðismálum. Að þeir geti á góðum eða viðráðanlegum kjörum eignast eigin húsnæði eða hafi ella möguleika á að leigja húsnæði einnig á góðum eða viðráðanlegum kjörum. Þetta hefur verið hin almenna pólitíska sýn og við viljum viðhalda henni.

Það kom fram í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra að leigumarkaðurinn stendur frekar vel um þessar mundir. Gallup-könnun sýndi að fólk hefur almennt frekar góðan aðgang að leiguhúsnæði og húsnæði er gott. Það má segja að búið sé að taka út af markaðnum lélegar íbúðir og á árunum 2002–2004 hefur Íbúðalánasjóður lánað til um 2.000 leiguíbúða þannig að það er veruleg innspýting og alveg ljóst að leiguíbúðaverð er í jafnvægi.

Það kom einnig fram að starfandi nefndir hafa verið að skoða íbúðalánamál og markaðinn og að leitað hefur verið leiða til að lækka byggingarkostnað. Einnig stendur til að kanna hvort endurskoða eigi ákvæði byggingarlaga og/eða byggingarreglugerðar með það fyrir augum að auka svigrúm varðandi lágmarksstærðir herbergja og geymslna. Af þessu tilefni vil ég taka sérstaklega fram, virðulegur forseti, að þetta er einmitt mál sem hefur oft komið upp í umræðunni. Er hægt að lækka byggingarkostnað, sérstaklega á smáíbúðum, með því að breyta þeim kvöðum sem gerðar eru til byggingaraðila, verktaka og fleiri um hvernig þessar íbúðir eiga að líta út? Þetta hefur einnig verið m.a. til skoðunar í umhverfisráðuneytinu og þar stendur núna yfir skoðun á breytingum á skipulags- og byggingarlögum í tveimur nefndum. Haldin var ráðstefna fyrir stuttu til að fá fram hugmyndir um hvernig væri hægt að breyta reglugerð, hugsanlega lögum til að lækka byggingarkostnaðinn og þar er verið að skoða eftirfarandi atriði: Er hægt að minnka kröfur varðandi geymslur? Er hægt að minnka kröfur varðandi sérþvottahús þannig að fólk geti til dæmis tekið þvottavélar sínar inn á baðherbergi? Er hægt að breyta fyrirkomulagi íbúða með sérhópa í huga, svo sem námsmenn, þannig að kröfurnar verði ekki eins miklar og þær eru í dag?

Mér finnst þetta mjög athyglisverð umræða og langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, ef hann hefur eitthvað skoðað hvernig málin standa, hvort eitthvað nýtt hafi komið í ljós. Það gæti verið mjög ákjósanlegt fyrir allan íbúðamarkaðinn ef hægt væri að auka sveigjanleika varðandi kröfur í byggingum þannig að byggingarkostnaður lækkaði. Er honum kunnugt um að svo sé?

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að 90% lánin voru eitt af aðaláherslumálum okkar framsóknarmanna í síðustu alþingiskosningum. Við fundum að afar æskilegt væri að koma málinu í framkvæmd til að auka kjarabætur fólks. Við lögðum mikið upp úr að koma málinu á framfæri og við erum núna að koma því í höfn. Við erum mjög ánægð með þetta mál og ég er einnig mjög ánægð með hversu jákvæður tónn er í hinum stjórnmálaflokkunum út í þetta. Hæstv. félagsmálaráðherra setti vinnuna við frumvarpið í gang og að því hefur verið unnið í samræmi við hagsmunaaðila. Slíkt er afar gott til þess að málið verði unnið eins heildstætt og hægt er.

Eins og ýmsir hafa gert tel ég ástæðu til að rifja upp það sem átti sér stað í sumar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór ágætlega yfir það en þá fór í gang mikil umræða um húsnæðismarkaðinn og komu fram mikil viðbrögð bankanna. Þau viðbrögð komu í kjölfar breytinga á skuldabréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs þar sem sú breyting var hvatinn til að bankarnir fóru skyndilega að keppast við að lækka vexti og bjóða lán til íbúðarkaupenda. Þetta var afar sérkennileg atburðarás. Að mörgu leyti er hún mjög jákvæð en bankarnir hafa ekki hreyft sig neitt á þessum markaði svo heitið getur fyrr en í sumar.

En það er önnur forsenda fyrir því að bankarnir gátu hreyft sig svona mikið. Það var bæði þessi breyting á skuldabréfaútgáfunni en það var líka einkavæðing bankanna. Ef hún hefði ekki komið til á sínum tíma er alveg ljóst að þeir hefðu ekki brugðist við eins og þeir gerðu í sumar. Þetta eru því samverkandi áhrif.

Virðulegi forseti. Ég vil líka gera að umtalsefni hvað þetta er mikil kjarabót fyrir neytendur eða íbúðarkaupendur. Tökum tvö dæmi um hjón eða sambúðarfólk sem ætlar að kaupa sér íbúð og gamla kerfið er skoðað og síðan er það borið saman við nýja kerfið. Ef þessi hjón þurfa t.d. á 13 millj. kr. láni að halda til þess að kaupa sér þokkalega íbúð þá er ljóst að í gamla kerfinu er hægt að hugsa sér að 9,2 millj. hefðu verið teknar í fasteignaverðbréfi með 5,1% vöxtum og tekið yrði viðbótarlán upp á 3,8 millj. með 5,3% vöxtum, samtals 90% lán til íbúðarkaupa. Ef við tökum annað dæmi til samanburðar í nýja kerfinu um sama fólk sem tekur 90% lán upp á 13 millj. með 4,3% vöxtum þá er ljóst að í nýja kerfinu borgar þetta sama fólk 87 þús. kr. lægra í afborganir og vexti á fyrsta ári en í gamla kerfinu. Á lánstímanum borgar það tæpum 3,5 millj. kr. lægri afborganir og vexti. Hér er því óumdeilanlega um geysilega mikla kjarabót að ræða fyrir almenning, tæplega 90 þús. kr. á fyrsta ári og rétt undir 3,5 millj. kr. á lánstímanum.

Mig langar líka að draga fram að auk þess að vera mjög hagstæð fyrir íbúðarkaupendur þá léttir þessi breyting líka mjög mikið á sveitarfélögunum og er því mjög jákvæð fyrir þau. Það helgast af því að viðbótarlánin falla niður þannig að sveitarfélögin losna við að greiða í varasjóð viðbótarlána en á síðasta ári námu þessi framlög rúmlega 300 millj. kr. Samkvæmt 6. gr. getur varasjóður húsnæðismála aukið tækifærin til að greiða sveitarfélögunum tap vegna sölu á félagslegum íbúðum á almennum markaði og svo næst að sjálfsögðu fram vinnusparnaður vegna þess að sveitarfélögin þurfa ekki að sýsla með þessi viðbótarlán í framtíðinni. Þetta léttir um a.m.k. 300 millj. kr. af sveitarfélögunum og það kom fram í umræðunum að það væri kannski ekkert voðalega mikið en þetta er mjög há upphæð, þetta eru 300 millj. kr. Þetta er því mjög jákvætt fyrir sveitarfélögin sem hafa borið sig illa upp á síðkastið vegna tekjustofna sinna. Þó ber að hafa í huga að hæstv. félagsmálaráðherra og félagsmálaráðuneytið munu eiga viðræður við sveitarfélögin í kjölfar þessa um hvernig þau koma að húsnæðismálum. Miðað við tóninn á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldinn var fyrr í vikunni virðast sveitarfélögin ekkert vera að flýta þeim viðræðum.

Það hefur komið fram í umræðunni, virðulegi forseti, að við viljum almennt verja Íbúðalánasjóð. Hann hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki vegna þess jafnréttis sem hann hefur boðið upp á. Fólk getur fengið lán óháð búsetu og óháð fjárhagslegri forsögu. En bankarnir einbeita sér að svokölluðum virkum markaðssvæðum og menn vita ekki alveg hvernig þeir hafa hugsað sér að koma til móts við landsbyggðina. Þeir hafa ekki gert það ekki á sama hátt og Íbúðalánasjóður. Bankarnir hafa heldur ekki sýnt að þeir muni koma með sams konar félagsleg úrræði og Íbúðalánasjóður gerir ef fólk lendir í þröng, en þá hefur Íbúðalánasjóður fryst lánin í allt að 3 ár, lengt í lánum og skuldabreytt vanskilum. Það er mörgum til efs að bankarnir munu eitthvað skoða það að koma til móts við þá sem lenda í vandræðum. Íbúðalánasjóður hefur þessa félagslegu sýn sem bankarnir hafa ekki sýnt burði til að feta auk þess að Íbúðalánasjóður sinnir líka landsbyggðinni. En það er ekki þar með sagt að þessi innkoma bankanna eigi ekki rétt á sér. Íbúðalánasjóður hefur borið ægishjálm yfir aðra á þessum markaði en það er líka vegna þess að hann hefur sinnt honum, en það hafa aðrir ekki gert. Það má vel hugsa sér að markaðshlutdeild Íbúðalánasjóðs minnki eitthvað. Ef ég man rétt er hún um eða yfir 80% þannig að það er svo sem ekkert óeðlilegt að aðrir komi inn á þennan markað með góð kjör. Á sama tíma viljum við halda þessari góðu stöðu gagnvart landsbyggðinni og gagnvart þeim sem hugsanlega lenda í vandræðum með afborganir og þurfa úrræði. Við viljum líka sjá hvort bankarnir hafi þol í þetta, hvort þeir hafi úthald. Enn sem komið er er því þörf á Íbúðalánasjóði og eins og fram hefur komið í umræðunni þá vilja fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem hér hafa talað almennt verja Íbúðalánasjóðinn.

Ég tel að þetta frumvarp sé afar gott og fagna því að þingmenn segjast vilja vinna tiltölulega hratt að þessu máli í félagsmálanefndinni og við munum reyna að gera það þannig að hið nýja fyrirkomulag taki gildi frá og með næstu áramótum. Þetta er afar gott mál og til mikilla hagsbóta fyrir neytendur. Á sama tíma skil ég mjög vel að þeir sem vilja verja Íbúðalánasjóð ræða mikið um hve há þessi hámarkslán eigi að vera, hversu hátt þetta þak á að vera vegna þess að við viljum ekki að öll þessi lán færist beint yfir í bankakerfið að öllu óbreyttu.