131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[11:59]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi hvort flýta eigi afgreiðslu málsins þannig að hið nýja fyrirkomulag taki gildi 1. desember þá er eðlilegt að það verði rætt við umfjöllun málsins í félagsmálanefnd. Við munum að sjálfsögðu senda þetta mál út til umsagnar. En svona ber málið að til stjórnarflokkanna og inn í þingið og sjálfsagt hefur hæstv. félagsmálaráðherra skoðað alla fleti þess. Þetta er sem sagt niðurstaða í þessu frumvarpi eins og það lítur út í augnablikinu og við getum ekkert kveðið upp úr með það hér og nú hvort einhverjar breytingar verði gerðar á því.

Ég get heldur ekki kveðið upp úr með hvort við munum gera einhverjar tillögur um breytingar á lántökugjöldunum á þessari stundu. Við hljótum að skoða það líka í félagsmálanefnd eins og allar greinar þessa máls.

Varðandi hámarksfjárhæðina og spurninguna um hvort þetta gengur of skammt, hvort hún ætti að vera hærri þá er það mat hæstv. félagsmálaráðherra sem fer með þennan málaflokk að sú upphæð sem nefnd er í frumvarpinu sé ásættanleg, hámarkið 13 millj. og nú þegar er búið að breyta reglugerð þannig að það er 11,5 millj. sem er hámarksfjárhæðin. Það kom líka mjög skýrt fram bæði hjá hæstv. félagsmálaráðherra og öðrum sem hér hafa talað að það er æskilegt og nauðsynlegt að þessi upphæð þróist í takt við það sem er að gerast á húsnæðismarkaðnum. Ráðherrann hefur möguleika í reglugerð að breyta henni og að sjálfsögðu mun hann eins og eðlilegt er fylgjast með þróun á húsnæðismarkaði þannig að það er ekki útilokað að gerðar verði breytingar á henni í reglugerðum til hækkunar eftir því hvernig mál þróast áfram.