131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[12:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þessa síðasta, að eðlilegt sé að skoða þetta með tilliti til þróunar á markaðnum: Hver er þróunin á markaðnum? Verð á þriggja herbergja íbúð er um 13 millj. kr. og það liggur fyrir að lán Íbúðalánasjóðs nú duga ekki fyrir nema um 50% af meðalverði íbúðar. Bankarnir hafa ekki þak á hámarkslánsfjárhæðum sínum. Fólk gæti þannig fengið 20–30 millj. kr. lánaðar þar á meðan það fær einungis 11,5 millj. kr. úr sjóðnum. Ef þetta á að þróast í takt við það sem er í raunveruleikanum, það sem er að gerast hjá bönkunum þá á auðvitað strax að fara hærra. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra tjái sig um það á eftir hvort hann er ekki tilbúinn til að svo verði.

Mér finnst reyndar ófært, miðað við stöðuna, að það skuli allt í reglugerð, breytingar á hámarksfjárhæðinni. Ég vil að við höfum skoðun á því í þinginu hver sú hámarksfjárhæð á að vera og þá komi skýrt fram í nefndaráliti ef menn telja rétt að hafa þetta áfram í reglugerðum.

Varðandi gildistökuna þá munum við skoða það atriði. Ég heyri að hv. þm. vill að við reynum að flýta afgreiðslu málsins. Við höfum afgreitt stærri mál en þetta á þeim 3–4 vikum, sem við höfum til stefnu. Ég heiti stuðningi við að flýta gildistökunni. Það munar um hverja einustu viku sem Íbúðalánasjóður fær auknar heimildir. Ef ég skil hv. þm. rétt þá er hún opin fyrir því að skoða lántökugjaldið, að við reynum að sammælast um lækkun á því. Við munum ræða þetta áfram í félagsmálanefnd. Hv. þm. útilokar ekkert af því sem ég hef sagt og við munum reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu við afgreiðslu málsins í félagsmálanefnd.