131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[13:36]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það hefur ekkert nýtt eða óvenjulegt komið upp í efnahagsmálum síðustu vikur sem réttlætir þá svartsýni sem kemur fram hjá hv. málshefjanda Össuri Skarphéðinssyni um þessi mál. Það er alveg ljóst og búið að vera lengi að þær miklu framkvæmdir sem eru í landinu, og þá sérstaklega í kringum virkjanir og stóriðju, hefðu í för með sér nokkra þenslu í þjóðfélaginu. Við höfum vitað það frá upphafi. Þetta eru mestu framkvæmdir Íslandssögunnar.

Það var ákveðið að því er varðar fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 2004 að fjárlögin fyrir það ár yrðu mun aðhaldssamari en fjárlögin fyrir 2003. Það er líka gert ráð fyrir aðhaldssömum fjárlögum árið 2005 þó að breytingin frá 2004 til 2005 sé ekki jafnmikil og var milli áranna 2003 og 2004.

Það er hins vegar rétt að verðbólguvæntingar hafa nokkuð aukist, m.a. vegna þess að mikil íbúðalán hafa verið hjá bönkunum sem er ekki neikvætt, heldur fyrst og fremst jákvætt því að þar hefur almenningur fengið tækifæri til að endurskipuleggja fjárhag sinn og koma stuttum lánum yfir í löng. Vissulega léttist greiðslubyrði meðal almennings vegna þessara ráðstafana og verður til þess að almenningur hefur meira á milli handanna til ráðstöfunar til neyslu. Það liggur fyrir en það er löngu tímabært að hér á landi verði sambærilegt lánaumhverfi í sambandi við íbúðalán og í löndunum í kringum okkur. Það hefur verið okkur til vansa hvernig þetta kerfi hefur verið.

Það er hins vegar rétt að olíuverð hefur hækkað umfram það sem var áætlað á sínum tíma. Fasteignaverð hefur jafnframt hækkað og virði eigna er meira.

Hv. þm. sagði að kjarasamningar kæmu til endurskoðunar haustið 2005. Það er rétt. Það var gert ráð fyrir því í forsendum kjarasamninga að verðbólga yrði þá u.þ.b. 3%. Í spá fjármálaráðuneytisins sem birtist með fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að verðbólga í nóvember 2005 verði 3,2% sem er u.þ.b. það sama og var gert ráð fyrir í forsendum kjarasamninga. Þetta er vissulega spá og það er full ástæða til að taka undir það að gæta þurfi aðhalds og varkárni í þessu sambandi.

Ég vil biðja hv. þingmann að vera ekki alltaf svona svartsýnn í efnahagsmálum. Í desember 2000 kom hann hér upp og talaði um rothögg fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Í maí 2001 talaði hann um brotlendingu efnahagsstefnunnar. Á fundi á Ísafirði í mars árið 2003 var hann þar ásamt talsmanni Samfylkingarinnar og taldi að vegna efnahagsstefnunnar mundu öll þau störf sem áynnust vegna framkvæmdanna á Austurlandi og Grundartanga tapast, talaði þá um 5 þús. störf. (ÖS: Vitleysa.) Var það? Auðvitað var þetta tóm vitleysa en það var nú samt sagt.

Ég bið hv. þingmann að tala fólk ekki inn í þessa svartsýni.

Í dag birtist tilkynning frá fyrirtækinu Century sem ætlar að byggja upp á Grundartanga fyrir miklar fjárhæðir, fjárfesta þar fyrir marga milljarða. Vegna hvers? Vegna þess að þeir hafa trú á íslensku viðskiptaumhverfi og íslensku efnahagslífi. Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli að menn hafi þessa trú. Það er engin ástæða til að óttast að stöðugleiki verði ekki hér áfram en við skulum hins vegar viðurkenna að það er mikið álag á efnahagskerfið. Það er þó engin ástæða til annars en að ætla að efnahagskerfið þoli það. Við leggjum allt þetta á efnahagskerfið til að skapa meiri verðmæti, fá fleiri störf og minnka atvinnuleysið. Þess vegna er hin mikla uppbygging og það mun að sjálfsögðu verða íslenskum launþegum til góðs.