131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Þróun verðbólgu og forsendur kjarasamninga.

[14:04]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar tók af mér ómakið. Ég ætlaði að rifja hér upp litla sögu um minni gullfisksins og bera það saman við minni hæstv. forsætisráðherra. Gullfiskurinn man u.þ.b. þrjár mínútur aftur í tímann og það hefur komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra man töluvert lengra aftur í tímann en hann man ekki þrjú ár. Þau varnaðarorð sem við í Samfylkingunni fluttum hér um viðskiptahalla, um gengi og verðbólgu, gengu því miður öll eftir. Viðskiptahallinn jókst hömlulaust upp úr aldamótunum síðustu, leiddi til áhlaups og gengisigs, leiddi til þess að verðbólgan fór hér úr böndunum.

Hæstv. forsætisráðherra brýtur í blað. Hann er búinn að vera í tæpa tvo mánuði í embætti og við vitum öll um þá ólgu sem er í samfélaginu núna. Hæstv. forsætisráðherra er áhyggjulausasti maður á öllu jarðríki. Það hefur komið fram að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af kennaraverkfalli. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af verðbólgu. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki áhyggjur af neinu. (Gripið fram í: Hvað gerðist ...?) Þetta er allt í fínum málum hjá hæstv. forsætisráðherra.

Frú forseti. Ætli hæstv. forsætisráðherra viti hvernig hin gálausu tök og hinar gálausu og ábyrgðarlausu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, t.d. varðandi skattalækkanir, eru að leika ákveðin viðhorf í samfélaginu? Við erum ekki búin að ljúka kennaraverkfalli, það er miðlunartillaga í gangi og kennarar eru að taka ákvörðun um það þessa dagana hvort þau eigi að samþykkja hana eða ekki. Við heyrum núna í fréttum að forustumenn kennara í Reykjavík segja það fullum fetum að verðbólguspá næstu ára sé þannig að það sé til lítils að samþykkja miðlunartillöguna vegna þess að launahækkanirnar verði étnar upp af verðbólgunni sem þessi maður hefur engar áhyggjur af.

Hæstv. forsætisráðherra kemur hér með heimakokkaða verðbólguspá úr fjármálaráðuneytinu frá því (Forseti hringir.) í haust. En hann tekur ekki mark á ASÍ, hann tekur ekki mark á Seðlabankanum, hann tekur ekki mark á Landsbankanum, hann telur ekki mark á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. (Forseti hringir.) Hann er áhyggjulausasti maður í heimi. Gaman væri að vera svona. (Forseti hringir.)