131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:09]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við höldum nú áfram að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál sem umræða hófst um í morgun, sem sagt um að taka upp 90% lán með ákveðnu þaki, eins og hér hefur komið fram, og breyta því kerfi sem verið hefur í gildi.

Allt er þetta gott og blessað vegna þess að segja má um Íbúðalánasjóð að hann sé mikill jafnréttissjóður, ef svo má að orði komast. Hann mismunar ekki fólki, a.m.k. ekki eins mikið og aðrir, eftir því hvar þeir búa á landinu. Kem ég kannski að því síðar þegar ég ræði um fasteignalán bankanna.

Þess vegna er mikilvægt að menn standi dyggan vörð um Íbúðalánasjóð eins og ræðumenn hafa sagt hér í morgun, og að hann sé varinn vegna þess að við vitum auðvitað að það er töluverð ásókn lánastofnana — við fylgdumst með því í vor og sumar — í að þessi opinberi sjóður leggist af og fari inn í bankakerfið. Þess vegna segi ég að það er mikilvægt að standa dyggan vörð um þennan sjóð.

Sá opinberi sjóður sem hér er verður að gæta jafnræðis og jafnréttis milli þegna landsins, sama hvar þeir búa. Þetta segi ég Íbúðalánasjóði til hróss. Hér hefur nefnilega komið fram að fasteignalán bankanna gæta ekki jafnræðisins, íbúar höfuðborgarsvæðisins þar sem veðin eru tryggari að mati bankanna fá hærri lán en íbúar landsbyggðarinnar og alls konar þröskuldar eru settir þar inn.

Þegar ég segi þetta um Íbúðalánasjóð og hæli honum verð ég samt sem áður að segja að Íbúðalánasjóður er því miður — og hefur verið undanfarin ár — í ákveðnu hlutverki gagnvart landsbyggðarfólki og mér líkar það ekki. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra nokkurs — hann situr hér í salnum meðan umræða er um frumvarp hans eins og ráðherrar eiga að sjálfsögðu að gera. Ég er sem sagt að ræða um Íbúðalánasjóð sem vefengir stundum söluverð húsnæðis á landsbyggðinni, vefengir það markaðsverð sem sett er upp í kaupum og sölum milli aðila og á það til að senda sérfræðinga að sunnan, eins og sagt er stundum, SAS-ara, til viðkomandi byggðarlags að skoða viðkomandi eign og jafnvel að reyna að verðfella hana eða lækka verðið. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð hjá Íbúðalánasjóði allra landsmanna sem ég hef hér verið að dásama og hæla. Mér finnst ljóður á því hvernig þetta er gert. Nú hlýtur það að vera svo, virðulegi forseti, að markaðsverð íbúða, sama hvar það er á landinu, hlýtur að vera það verð sem kaupandi og seljandi hafa komið sér saman um. Þess vegna á Íbúðalánasjóður að lána út á það verð líkt og gert er hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem aðilar koma sér saman um söluverð. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvað honum finnist um þetta atriði og hvort það muni kannski minnka eða leggjast af með þessum breytingum hér eða hvort íbúðaseljendur og -kaupendur á landsbyggðinni þurfi áfram að búa við að þetta verði gert svona.

Bankarnir hafa í samkeppni við Íbúðalánasjóð komið fram á markaðinn á sumrinu, sem er af hinu góða, skapað fjölbreytta lánamöguleika, lengri tíma og allt það, til að byggja upp þessa miklu og bestu eign hverrar fjölskyldu, þ.e. húsnæði, og boðið þar mikið lán sem er ekki boðið öllum landsmönnum, jafnvel ekki þegar viðkomandi peningastofnanir eru á viðkomandi stöðum. Það geta verið hömlur á. Við skulum ekki gleyma því að á sumum stöðum er bankastarfsemin að dragast saman og hefðbundnir bankar jafnvel að fara í burtu. Eftir sitja hinir ágætu sparisjóðir sem eru bankastofnanir margra byggðarlaga og sem ég því miður óttast að geti ekki tekið þátt í þessari samkeppni mjög lengi.

Það hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að lánin sem peningastofnanir bjóða með þeim vöxtum sem þær gera og engum hámörkum geti verið þensluhvetjandi, séu með öðrum orðum neyslulán. Það er vitað mál, eins og fram hefur komið, að fólk er að skuldbreyta lánum, taka óhagstæð lán, þess vegna til utanferða, bílakaupa og annars slíks og skuldbreyta þeim yfir í betri lán. Það getur auðvitað verið þensluhvetjandi eins og getið er um í umsögn fjármálaráðuneytisins þar sem varað er við þessu.

Í því sambandi vil ég segja að þetta mun náttúrlega fyrst og fremst hækka fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu eins og gerst hefur í mörg ár, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Hún tók dæmi um að tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um allt að 100% frá árinu 1997. Ég þykist vita að þetta sé hárrétt og að hækkunin sé jafnvel meiri.

Virðulegi forseti. Til hvers leiðir hækkað fasteignaverð? Jú, til hækkunar á húsnæðislána- eða húsnæðisþætti vísitölu neysluverðs. Til hvers leiðir það svo? Jú, til hækkunar fasteignalána hjá öllum landsmönnum, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur alls staðar, jafnt á Raufarhöfn sem Reykjavík, eða Kópavogi eða Kópaskeri. Það gerir það að verkum að íbúar þessara staða þurfa að greiða meira af lánum sínum en áður. Þeir njóta ekki ávaxtanna við hækkun fasteignaverðs, að hægt sé að selja viðkomandi fasteign hærra verði og greiða upp lánin. Þetta vildi ég nefna, vegna þess að það er allt of sjaldan rætt um vísitölu neysluverðs, hvernig hún og húsnæðisþátturinn er fundin út. Mér virðist að það mælist fyrst og fremst hækkunin á höfuðborgarsvæðinu sem leiðir til þessara víxlverkana allra.

Ég get ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, að nefna svar hæstv. félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá mér um lánveitingar Íbúðalánasjóðs á síðasta þingi, sem er í raun og veru mjög merkilegt svar. Við sjáum fjölda lána og annað slíkt og við sjáum líka hvernig viðkomandi lán hafa lánast út frá Íbúðalánasjóði eftir sveitarfélögum sem er því miður spegilmynd af byggðaröskun og byggðaþróun undanfarinna ára. Ég horfi hér til félagsmálaráðherra, og kannski þess vegna rifjast upp orð hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, sem sagði að Framsóknarflokkurinn hefði gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu sinni á höfuðborgarsvæðinu. Ég skil ekki af hverju þetta kemur allt í einu upp í hugann þegar ég horfi hér til hægri á hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, að gleyma landsbyggðinni í markaðssetningu á höfuðborgarsvæðinu. En nóg um það.

Í frumvarpinu er líka fjallað um áhrif sem niðurlögn á viðbótarlánum hefur á sveitarfélögin í landinu. Það er gott. Ég vil þó að haft sé í huga að viðbótarlánin og þau fjárhagslegu útgjöld sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir undanfarin ár með viðbótarlánunum var náttúrlega eitt af þeim verkum og ákvörðunum Alþingis sem fóru til sveitarfélaganna, juku útgjöld þeirra án þess að tekjustofn kæmi á móti. Þess vegna er gott að þetta skuli fara. En betur má ef duga skal í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og vita það allir sem sátu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku að það vantar mikið upp á.

Ég vara við því að hæstv. félagsmálaráðherra og stjórnarliðar almennt rjúki upp og fagni þeim smáupphæðum sem fara þarna. Ég segi smáupphæðum, vegna þess að þetta er lítið brot af því sem á sveitarfélögin hefur hallað í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sama hvort það eru 300 millj. kr. sem detta út eða reksturskostnaður viðkomandi sveitarfélags sem lagður er inn. Ég fagna því að þetta skuli vera sett svo vel inn þegar þetta er að detta út og menn geti skreytt sig með þeim rósum hér nú og vænti þess að hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, setji það eins vel inn í öðrum frumvörpum sem kunna að auka álögur á sveitarfélög vegna ákvarðana sem teknar eru á hinu háa Alþingi, að það sé sett inn á jafnmarkvissan hátt eins og að hver afgreiðsla kosti um 5 þús. kr. á viðbótarlánum og allt reiknað eins og hér kemur til.

Án þess að ég ætli að fara að ræða um fjárhagsleg samskipti fagna ég því að þetta skuli fara þarna út, en segi líka að það er margt annað sem á eftir að koma til. Ég vara því hæstv. stjórnarliða við því að fagna þessu og segi að þetta er bara lítið hænuskref í átt að því að koma þessu í eðlilegt horf þarna á milli. Við heyrðum undirliggjandi óánægjurödd sem liggur í sveitarstjórnarmönnum þar sem meira að segja forusta Sambands íslenskra sveitarfélaga, á ég þá sérstaklega við formann sambandsins, virtist aðeins vera farinn að byrsta sig og hrista sig í vörn fyrir sveitarfélögin, bara til að hafa sagt það á fjármálaráðstefnu. Ég hélt eitt augnablik að það ætti að fara að kjósa formann í framhaldi af ræðu formannsins, það væri formannskjör seinna um daginn, en það var nú ekki. Mér fannst þetta vera framboðsræða. Vonandi er það rétt byrjunin á hörkuforustu Sambands íslenskra sveitarfélaga gagnvart ríkinu í þeim samningum sem eiga að gerast í þessum mánuði. Við höfum ekki meira en þennan mánuð til að ganga í það.

Ég vil líka segja með viðbótarlánin, virðulegi forseti, af því að fjallað er um þau í 8. gr., að nú þarf ekki lengur samþykki viðkomandi húsnæðisnefndar til að yfirtaka þau lán eins og áður. Það er ágætt og má leiða líkur að því að íbúðarhúsnæði sem er með viðbótarláni sé sölulegra en önnur sem eru ekki með viðbótarláni. Auðvitað er húsnæði alltaf sölulegra þegar það er með hagstæðu láni. Á móti kemur að ef menn vilja skuldbreyta, því þessi lán eru með hærri vöxtum en þau sem á að bjóða eftir samþykkt frumvarpsins, mun það kosta stimpilgjöld og lántökukostnað sem er af hinu verra. Með öðrum orðum getur fólk tekið nýtt lán og greitt upp lánin sem voru fyrir, en þarf þá að greiða stimpilgjald og lántökukostnað og allt það þannig að fjárhagslegur ávinningur fer kannski þar. Hin ósanngjörnu stimpilgjöld geta því leitt til þess að sá einn hagnast sem kannski síst skyldi, þar sem ríkissjóður fær af slíkum skuldbreytingum. Það er algjörlega óþolandi að við skuldbreytingu á láni, jafnvel hjá hinum opinberu sjóðum, skuli þurfa að fara þessa leið og greiða stimpilgjöld og lántökukostnað.

Ég vil minnast á félagslegar íbúðir. Í frumvarpinu er fjallað um að setja meiri peninga í varasjóð húsnæðismála og auka þar með tækifæri sveitarfélaga að greiða upp og taka á sig tap vegna sölu á félagslegum íbúðum. Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt atriði og tel að félagsmálanefnd eigi að skoða það og hæstv. félagsmálaráðherra líka, að sett sé örlítið meira í sjóðinn til þess að auðvelda sveitarfélögum um allt land að selja sig út úr kerfinu, ef svo má að orði komast, vegna þess að við vitum að hér áður fyrr var mikið byggt af félagslegu húsnæði sem er svo núna vegna íbúafækkunar og annarra þátta, allt of mikið framboð af. Þess vegna vantar að taka húsnæðið og gera sveitarfélögunum kleift að losa þetta út á hinn almenna markað og greiða upp mismun sem er á lánum sem standa á þessu og markaðsvirði á því sem það selst á. Það léttir líka mjög fjárhagsstöðu fjölmargra sveitarfélaga ef það er gert.

Virðulegi forseti. Þetta vil ég að verði veganesti félagsmálanefndar. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd, en ég vænti þess að málið verði tekið upp og skoðað í þeirri ágætu nefnd, ásamt því að ég tek undir það sem hér hefur verið sagt og skal hafa það lokaorð mín, að ég tel ákaflega mikilvægt að félagsmálanefnd vinni málið mjög hratt og fljótlega svo breytingin geti tekið gildi 1. janúar nk. vegna þess að þegar verið er að breyta um kerfi eins og þetta vitum við að það hefur áhrif á markaðinn, fólk fer að bíða og hætta og ástæðulaust að Alþingi taki sér allt of langan tíma í þetta. Ég trúi ekki öðru en hægt sé að skapa sátt um að vinna þetta fljótt og vel og klára þetta áður en Alþingi fer heim í jólafrí.