131. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2004.

Textun.

20. mál
[16:18]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. alþingismanna um þetta frumvarp er hér á ferð afar þarft og gott mál. Þetta frumvarp til laga um textun er flutt af þingmönnum stjórnarandstöðu, þ.e. tveimur þingmönnum Frjálslynda flokksins, einum þingmanni Vinstri grænna og þremur þingmönnum Samfylkingar.

Þegar maður skoðar markmið þessara laga sem við vonum að verði samþykkt þá eru þau að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum, afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn. Hér er að sjálfsögðu um fullgilt mannréttindamál að ræða og þarf í raun ekki að eyða mörgum orðum í það eða beita mikilli röksemdafærslu til að allir skilji að þetta á að vera sjálfsagt og eðlilegt mál.

Í ágætri greinargerð með frumvarpinu kemur fram að um eða yfir 10% landsmanna eiga annaðhvort við heyrnarskort eða heyrnarleysi að stríða. Mér finnst það vera til marks um það hversu hógvær þessi hópur hefur verið í kröfum sínum fram til þessa, hversu lágvær þessi hópur hefur verið í kröfum sínum fram til þessa, að við Íslendingar skulum ekki komnir lengra á leið við að texta innlent sjónvarpsefni fyrir þetta fólk. Eins og fram kemur hér í töflu og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti á áðan erum við á svipuðu róli og Albanía í þessu efni.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta alveg hreint með ólíkindum því að mjög mikið af því sjónvarpsefni sem sent er út í dag, til að mynda fréttir, er þegar til á texta þegar það fer í loftið. Nánast allir fréttatímar eru klárir á texta í handriti áður en þeir fara í loftið. Það eina sem ekki er til á texta 100%, ef svo má segja, eru viðtalsbútar við viðmælendur fréttamanna. Allt annað er tilbúið og textað. Því er mjög erfitt að skilja hvers vegna sjónvarpsstöðvarnar sem reka fréttastofu hafa ekki fyrir löngu séð sóma sinn í að sjá þó alla vega til þess að fréttatímarnir fari út textaðir. Það er ekkert mál að koma þessu við, ekki nokkurt minnsta mál og ætti í raun ekki að vera mikill kostnaður.

Ríkissjónvarpið hefur um margra ára bil lagt út í þann kostnað að hafa fréttaþuli sem tjá sig á táknmáli. Það hafa verið örstuttir fréttatímar síðdegis á hverjum degi þar sem þulir segja fréttir á táknmáli. Þennan kostnað yrði hægt að fella niður ef fréttirnar væru sendar út textaðar. Þarna mundu þá sparast peningar á móti þeim óverulega kostnaði sem hlytist af því að senda fréttir út textaðar. Þessu mætti kippa í liðinn strax um leið og þetta frumvarp tæki gildi og ætti í raun að gera það nú þegar.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur áðan þá eru þrír þættir í sjónvarpinu textaðir, þ.e. Spaugstofan, Í brennidepli og Stundin okkar. Ég veit ekki til þess að Stöð 2 til að mynda texti einn einasta þátt. Þetta er að sjálfsögðu til mikils vansa og það er enn og aftur til marks um hversu hógvær þessi stóri þjóðfélagshópur er að bæði Stöð 2 og Ríkissjónvarpið, annars vegar stöð seld í áskrift fyrir miklar fjárhæðir, mjög dýrt áskriftarsjónvarp, sennilega eitt það dýrasta í heiminum, og síðan RÚV, þ.e. ríkissjónvarpið, þar sem fólk borgar afnotagjöld, að þessar stöðvar skuli ekki sjá sóma sinn í því að fara út í að greiða þann kostnað sem hlýst af því að texta sjónvarpsefni fyrir þó þennan stóra þjóðfélagshóp sem hlýtur, herra forseti, að vera mikilvægur markhópur m.a. fyrir auglýsingar. Þetta er hópur sem borgar afnotagjöld sín fullu verði. Þetta er hópur sem ég veit ekki til að fái neinn afslátt á áskriftargjöldum sínum til Stöðvar 2. Samt er þetta stór þjóðfélagshópur sem fer á mis við mjög mikið af því efni sem sent er út frá þessum stöðvum og ekki bara innlenda þætti. Þessi hópur fer líka á mis við — gleymum því ekki — hann fer líka á mis við stóran hluta þeirra auglýsinga sem eru sendar út á þessum stöðvum og þó að margir telji auglýsingar meinlegan og leiðinlegan áróður þá hafa þær oft og tíðum töluvert upplýsingagildi.

Þetta fólk er neytendur alveg eins og við öll hin og þetta fólk býr ekki — vona ég alla vega — við svo verulega verri fjárhag en öll við hin að það geti ekki tekið þátt í neysluþjóðfélaginu á sama hátt og aðrir borgarar þessa lands. Þetta fólk er engir annars flokks borgarar. Þetta eru ekkert verri Íslendingar en við hin þó að þeir eigi við heyrnarörðugleika að stríða.

Þarna ættu menn því strax að gera bragarbót. Sjónvarpsstöðvarnar ættu að sjá sóma sinn í því að lagfæra þetta, t.d. með því að einhenda sér strax í að fréttatímarnir fari út textaðir og fara síðan að undirbúa sig fyrir að þetta frumvarp verði vonandi að lögum á þessu þingi. Nú er tiltölulega langur tími eftir af þinginu og ég hreinlega vænti þess, hef miklar væntingar um það, að þetta frumvarp fái afgreiðslu út úr menntamálanefnd. Það verður mjög gaman að sjá þær umsagnir sem munu berast frá sjónvarpsstöðvunum, þ.e. hvernig þær bregðast við þessu, hvaða skoðanir þær hafa á þessu frumvarpi. Það verður líka mjög áhugavert að fylgjast með vinnsluferli frumvarpsins í hv. menntamálanefnd og ég hlakka til þegar frumvarpið kemur hingað aftur til 2. umr.

Eitt aðeins að lokum, herra forseti. Hér er talað um Textasjóð og sagt að ríkið eigi að bera kostnað af því að styrkja fyrirtæki til tækjakaupa og styrkja þau til að greiða annan kostnað sem af þessu kann að hljótast. Ég efast um að þessi kostnaður þurfi að vera svo ofboðslega hár fyrir sjónvarpsstöðvarnar. Í greinargerðinni sem fylgir með frumvarpinu kemur fram að verið er að þróa nýja tækni sem gerir það að verkum að sífellt verður auðveldara og ódýrara að texta sjónvarpsefni þannig að ég get ekki ímyndað mér annað en að sjónvarpsstöðvarnar ættu að geta tekið stóran hluta af þessum kostnaði á sín breiðu bök á sama hátt og þessar sjónvarpsstöðvar hafa tekið á sig þann kostnað sem hlýst af því t.d. að talsetja barnaefni á íslensku. Hér hefur um árabil verið heill her af leikurum úti í bæ að talsetja erlent sjónvarpsefni fyrir íslensk börn. Ekki er að sjá annað en að til hafi verið peningar fyrir því. Hvernig stendur þá á því að lagt er út í þann kostnað að íslenska efni fyrir börnin blessuð, blönk börnin, en hins vegar tíma menn ekki að leggja út í kostnað til að texta sjónvarpsefni fyrir fólk sem er þó í fullri vinnu að langmestum hluta? Þetta finnst mér alveg hreint með ólíkindum og gersamlega óskiljanlegt.