131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[11:43]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er afar mikilvægt mál sem við tökum til umræðu í dag. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hversu gífurlega mikilvægt er að hægt sé að ná samstöðu í þinginu um löggjöf af þessu tagi. Löggjöf um mat á umhverfisáhrifum er grundvallaratriði í því að ákvarðanataka á þeim vettvangi verði ásættanleg. Að undangenginni þeirri endurskoðun sem nauðsynleg er þarf löggjöf um þessa þætti að vera sett í sátt allra flokka. Að mínu mati á ekki að keyra löggjöf af þessu tagi í gegn með meirihlutavaldi á Alþingi.

Ég er sérstaklega ánægð með það, og vil taka það fram, að samstaða skyldi vera um það á síðasta vetri, eftir þá miklu vinnu sem fram fór í umhverfisnefnd Alþingis, að geyma afgreiðslu málsins, fara í frekari skoðun á þeim athugasemdum sem fram höfðu komið og athuga hvað hægt væri að gera betur. Í því sambandi vil ég bæði nefna fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, og hæstv. umhverfisráðherra Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem var formaður umhverfisnefndar á síðasta vetri. Þær höfðu skilning á því og gerðu sér grein fyrir því hve miklu máli skipti að vinna eins og unnt væri að setningu laganna með því að ná samkomulagi við alla þá sem hafa gert veigamiklar athugasemdir, ná samkomulagi flokkanna og innan umhverfisnefndar. Þetta finnst mér stóra málið í vinnunni við þessi lög.

Hv. þm. Mörður Árnason er talsmaður fulltrúa Samfylkingarinnar í þessu máli innan umhverfisnefndar og var sá sem fór yfir athugasemdir Samfylkingarinnar í upphafi umræðu og ég þarf ekki að endurtaka það sem hann benti á hér og tek ég undir orð hans.

Hins vegar vil ég gjarnan árétta nokkur atriði, bæði frá umræðunni í fyrra og varðandi grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi í löggjöf eins og þessari.

Eitt var þetta með að búið var að taka út umtalsverð umhverfisáhrif og ótti okkar við hvað það þýddi að taka orðið „umtalsverð“ út. Mörg okkar töldu að með því væri í raun verið að veikja lögin. Það er mjög jákvætt að búið er að koma þessu í fyrra horf og taka það inn að ekki verði óafturkræf umhverfisspjöll og nota þessi lýsingarorð vegna þess að lögin eiga að sjálfsögðu að vera mælistika á áhrifin á umhverfið. Þess vegna verður að vera til skilgreining á því hver áhrifin á umhverfið eru. Þetta er gífurlega mikilvægt atriði.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði í ræðu sinni að hann hefði meiri efasemdir núna en þegar við hófum þessa umræðu í fyrra. Ég skil Mörð afskaplega vel vegna þess að það er líka hægt að nota annað og stærra orð og segja að margir þeirra sem eru uppteknir af umhverfismálunum séu óttaslegnari en áður vegna þess að svo mikil efnahagsleg hagsmunamál stangast á við verndun umhverfisins. Við höfum svo oft rekið okkur á það hversu efnahagslegu þættirnir geta vegið gífurlega þungt í ákvörðunum bæði hjá einstaklingum og ekki síður ákvörðunum sem ríkisstjórn tekur. Þess vegna erum við kannski öll óttaslegnari en oft áður og gerum okkur enn betur grein fyrir hve mikilvægt er að lögin séu eins vel úr garði gerð og unnt er til þess að þau standi fyrir þeirri vernd sem þeim er ætlað.

Þess vegna vil ég benda á nokkuð sem við töluðum um líka hér í fyrra, þ.e. að t.d. í náttúruverndaráætluninni er byggt á ákveðnu tölulegu mati. Þar er reynt að búa til skilgreiningar, reynt að búa til mælistiku á hvað séu of mikil umtalsverð áhrif til að hægt sé að sættast á þau. Þar, sem er verið að fjalla um skyld mál þó að þau séu öðruvísi, eru eins konar rauð flögg af því að verið er að reyna að búa til mælingar. Við þurfum líka einhverjar mælingar og flokkun varðandi það hvað séu umtalsverð umhverfisáhrif.

Við erum með vinnu í gangi við ákveðna flokkun og það eru rammaáætlanirnar. En það er samt öðruvísi flokkun en við þurfum að vera með hér þegar við erum að setja allt umhverfið undir. En vinnan, eins og hún hefur farið fram, við rammaáætlun er skilgreiningarvinna lík því sem þörf er á þegar farið er af stað með fyrsta frummat vegna þess að einhver óskar eftir að framkvæma.

Ég nefndi það líka í fyrra að umhverfislöggjöfin í Bandaríkjunum þykir með því besta sem til er og þar hafa menn ekki hikað við að nota einmitt þetta, þ.e. umtalsverð umhverfisáhrif. Ekki síst hefur það þótt mjög mikilvægt vegna þess að þetta er forsendan þegar og ef það gerist að mál fara fyrir dómstóla vegna þess að smátt og smátt myndast viðmiðun með úrskurðum stjórnvaldsdómstóla, viðmiðun sem verður notuð þegar á að fara í önnur og ný mál. Þess vegna er það ekki orðið tómt þegar við tölum um hversu mikilvægt sé að taka inn umtalsverð umhverfisáhrif heldur viljum við leggja áherslu á hvað það þýðir að vera með það í löggjöf, vera með það inni sem mælikvarða og viðmiðun og að tryggt sé að mælikvarði skapist sem fólk geti notað í framtíðinni.

Ég spurði í síðustu umræðu: Væri hægt að virkja Gullfoss ef framkvæmdaraðili ákvæði það? Ég spyr vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því að í frumvarpinu eins og það lá fyrir í fyrra var ætlast til — og það er gott — að gerð yrði matsskýrsla — hún heitir nú frummatsskýrsla — og hún færi til Skipulagsstofnunar og hún kæmi með athugasemdir. En hvergi var í lögunum nógu sterkur ventill sem tryggði að ef of miklar athugasemdir bærust þá gæti framkvæmdaraðilinn ekki látið þær sem vind um eyru þjóta. Þar var ekki nógu skýr ventill sem tryggði að framkvæmdaraðili gæti ekki látið athugasemdir, hversu alvarlegar sem þær væru, sem vind um eyru þjóta. Honum var fyrst og fremst ætlað að kynna sér þær, athugasemdir og matsskýrslur. En í raun setti ekkert honum stólinn fyrir dyrnar.

Þess vegna er það mjög til bóta núna að framkvæmdaraðilinn verður að taka rökstudda afstöðu til þess álits sem kemur frá Skipulagsstofnun um áhrifin þannig að það liggi fyrir þegar ákvörðun er tekin að frummatsskýrsla hafi verið unnin, að Skipulagsstofnun fari yfir hana og veiti sitt álit, jákvætt eða neikvætt, og að framkvæmdaraðili geti ekki farið af stað fyrr en hann hefur komið með rökstuðning fyrir því að hann geti gert það sem hann ætlar að gera og geti svarað þessum athugasemdum. Þetta eru gífurlega mikilvæg atriði og þess vegna er gott að þetta er komið inn.

Eitt fannst mér aldrei verða almennilega skýrt í umræðunni í fyrra og mér þætti mjög gott ef hæstv. umhverfisráðherra mundi nefna það hér. Það er hvað gerist í því ferli þegar ráðherra en ekki sveitarstjórn er með leyfisveitinguna fyrir framkvæmd. Alveg eins og kveðið er á um í orkulögunum er lokaákvörðunin hjá ráðherra. Ákvarðanir koma ekki hérna fyrir þingið og gerði hv. þm. Mörður Árnason það einmitt að umtalsefni í framsögu sinni fyrir okkar hönd hér í morgun. Hvernig verður ferli ákvörðunar og hvert má kæra það ferli þegar ráðherra á í hlut? Gott væri að fara yfir það af því að þetta líka er eitt af því sem menn hafa miklar áhyggjur af.

Enn annað vil ég nefna úr umræðunni í fyrra og það er þegar framkvæmdaraðili, við skulum segja sveitarstjórn, ætlar að fara í framkvæmd, ekki endilega mjög stóra eða alvarlega. Þá þarf að vera tryggt að þar sé haldið rétt á málum. En það vantaði leiðbeininguna til sveitarfélags eða framkvæmdaraðila um hvernig vinnu á að fara í á upphafsstiginu. Er þá ekki Skipulagsstofnunar að koma með leiðbeininguna til sveitarstjórnarinnar eða þess framkvæmdaraðila sem á í hlut til þess að fyrir liggi einhver forskrift að því hvernig ætlast sé til að farið sé í vinnuna?

Svo verð ég náttúrlega að nefna það enn einu sinni, af því að ég er búin að nefna það svo oft, að það að fara í matsvinnu og vinna mat á umhverfisáhrifum getur verið alveg gífurlega stórt mál. Ef ekki þarf neins staðar að fá leyfi fyrir því hvers konar röskun á að verða eða heimilt er að fara í við umhverfismat þá er oft búið að gera stóru spjöllin sem við erum einmitt að reyna afstýra með umhverfismati.

Ég nefni sem dæmi Torfajökulssvæðið af því að þar var farið í einhverjar tilraunaboranir þó ekki sé það nú langt komið. En við skulum segja að mikil vinna fari í gang við mat á umhverfisáhrifum þess að virkja jarðhitann í Torfajökli. Til þess að fara í umhverfismatið þarf margar borholur og öðruvísi vegi en þá slóða sem eru fyrir hendi í dag. Koma þarf fyrir miklum tækjabúnaði. Það verður jarðvegsrask og margs konar annað rask í kringum þetta mikla ferðamannasvæði og þessa einu af okkar stóru náttúruperlum. Áður en til þess kemur að taka ákvörðun um virkjun á grundvelli umhverfismats hafa því þegar orðið umhverfisspjöll. Ég hef mjög miklar áhyggjur af þessu og við höfum rætt þetta í Samfylkingunni.

Við í Samfylkingunni teljum það grundvallaratriði að ákvörðun sé alltaf gegnsæ og forsendur skýrar því að það á að vera hægt að rökstyðja kæru. Það er grundvallaratriði. Ef farið er með mál fyrir dómstóla mundi dómstóll eingöngu fjalla um það hvort lagaákvæðum væri fullnægt. Því verður allt ferlið að vera gegnsætt og skýrt og til að almenningur geti gert sér grein fyrir ákvörðun og forsendum hennar þá er líka gífurlega mikilvægt að leyfisveitandi viðhafi gagnsæ vinnubrögð til að ljóst sé hvort þarna séu hlutir í lagi eða ástæða til að bregðast við.

Virðulegi forseti. Á Alþingi hafa aftur og aftur verið fluttar tillögur um að vinna grunnnáttúrufarskort. Flutt hafa verið sérstök þingmál um það og fyrir liggur eftir ítrekaða umræðu á Alþingi að náttúrufarskort vantar. Ef framfylgja á því lagafrumvarpi sem við erum að ræða og vinna faglega að þessum mikilvægu þáttum verða að vera til náttúrufarskort. Það verða að vera til góð grunnkort því út frá þeim grunnkortum er unnið allt sem við erum hér að tala um.

Þessi grunnkort eru ekki til. Þau kosta ekki mikið. Hér hafa verið fluttar tillögur og ítarlega fjallað um þetta og það var líka þannig í fyrra þegar umhverfisnefnd kom með ábendingar um fjárlögin til fjárlaganefndar að þá lagði hún áherslu á að það yrði að veita peninga í gunnkortagerðina. Kortavinna var hafin og það var búið að veita, held ég, í tvígang smáa fjárhæð í þessa grunnkortagerð. Umhverfisnefndin benti á að til yrðu að vera náttúrufarskort ef fara ætti í faglega vinnu til grundvallar góðum ákvörðunum þegar náttúra Íslands er annars vegar og ef tryggja ætti að hér yrðu ekki unnin umhverfisspjöll. Það er svo einfalt.

Þess vegna verða það mín lokaorð að segja að við verðum að setja góða löggjöf á umhverfissviði og við munum náttúrlega fara jafnítarlega og með jafnjákvæðu hugarfari í þessa vinnu í umhverfisnefnd og við gerðum í fyrra og ég treysti því að þar verði góð samstaða um að ná sameiginlegri niðurstöðu. En þetta er angi af sama meiði, annars vegar löggjöfin og hins vegar grunnkortagerðin. Því verður einnig að setja peninga og vinnu í náttúrufarskort þannig að ekki standi á svo mikilvægum grunngögnum þegar gera þarf það sem hér er lagt til.