131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:00]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem fram hefur komið í athugasemdum hv. þm. Marðar Árnasonar og Rannveigar Guðmundsdóttur í Samfylkingunni né heldur það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan. Mig langar þó við 1. umr. um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlögum að reyna að varpa almennu ljósi á það viðfangsefni sem hér er á ferðinni og um leið tek ég auðvitað undir margt af því sem fram hefur komið í umræðunni.

Hér er á ferðinni frumvarp til laga um vinnubrögð, um aðferð við að meta umhverfisáhrif framkvæmda, tæki fyrir sveitarstjórnir, önnur stjórnvöld og framkvæmdaraðila til þess að geta með góðu móti, og í ferli sem öllum er kunnugt, á upplýstan og gegnsæjan hátt metið umhverfisáhrif framkvæmda og komið í veg fyrir óafturkræf umhverfisspjöll.

Eins og allir vita hafa þau lög um mat á umhverfisáhrifum sem eru í gildi ekki komið í veg fyrir umhverfisspjöll, a.m.k. leyfi ég mér að leggja það mat á löggjöfina eins og hún er. Ég vona að breytingar á löggjöfinni núna gangi þannig frá aðferðafræðinni að ekki verði um það að ræða að þegar búið er að setja stopp á framkvæmdir komi hinn pólitíski aðili, ráðherrann í þeim tilvikum sem við vitum um, og snúi við ákvörðun þess aðila sem stoppaði framkvæmd.

Jafnframt er mjög mikilvægt að við ræðum í hv. umhverfisnefnd og á hinu háa Alþingi um náttúruverndina, um umhverfisverndina í þessu samhengi, vegna þess að umhverfismatið er aðferð. Við ætlum að komast í gegnum það vonandi í vetur að ná sátt um vinnubrögðin og aðferðina við að meta umhverfisáhrif framkvæmda en það er langt því frá að hið háa Alþingi hafi lagt á sig þá vinnu sem þarf að mínu áliti til að ná sátt um náttúruvernd á Íslandi, um umhverfisvernd á landinu öllu.

Vissulega höfum við náttúruverndarlög og vissulega var samþykkt náttúruverndaráætlun á síðasta þingi en það er samt þannig, virðulegi forseti, að friðlýsing má sín lítils ef ákveðið er að lyfta hagsmunum stóriðjunnar hærra. Það virðist sem svo að þau ákvæði og það sem þó er í gildi í lögum og reglugerðum megi sín lítils ef það er á annað borð einbeittur vilji stjórnvalda að framkvæma, burtséð frá því hver áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið eru.

Kárahnjúkavirkjunin er að sjálfsögðu gleggsta dæmið um það og mér virðist því miður að hugsanleg eyðilegging Þjórsárvera, sem að hefur verið sótt mjög lengi, verði að raunveruleika fyrr en síðar. Þá staldrar maður við hvaða þýðingu það hafi að setja í lög friðlýsingar og annað sem á að vernda náttúruna ef alltaf er hægt að koma úr annarri átt og ógilda í raun með vinstri hendinni það sem sú hægri gerði.

Þá verður einnig að skoða vinnubrögð við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda í ljósi þeirra miklu áætlana sem uppi eru, mikilla hugmynda og mikilla áætlana, um stækkun álvera, um nýtt álver á Norðurlandi og um virkjanaframkvæmdir margs konar sem því mundi líklega fylgja. Hvernig á þetta að ríma saman við ekki bara ferlið í umhverfismatinu heldur eitthvað sem einu sinni var kölluð rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á Íslandi? Sú áætlun var sett af stað fyrir fimm árum. Lokaútgáfa hennar hefur enn ekki litið dagsins ljós og enn er ekkert vitað hvaða gildi hún mun hafa í umræðuna. Þetta þýðir einfaldlega að skoða verður umhverfisverndina á Íslandi með allt þetta í huga, ekki bara þau lög og það frumvarp sem við erum með í höndunum í dag heldur líka út frá áætlunum stjórnvalda um virkjanaframkvæmdir og stóriðju og um vilja okkar í ljósi þess hvernig við ætlum í raun að tryggja umhverfisvernd og náttúruvernd sem stendur undir nafni.

Ég leyfi mér að gera þetta að umræðuefni við 1. umr. frumvarpsins vegna þess að ég held að það skipti mjög miklu máli að hv. umhverfisnefnd velti þessu fyrir sér og hafi til hliðsjónar í umfjöllun sinni um málið, og efast reyndar ekkert um það. Nú vill þannig til að ég sat ekki í umhverfisnefnd á sl. vetri en ég sat þar á síðasta kjörtímabili og þekki nokkuð til vinnunnar við mat á umhverfisáhrifum og lögin sem sett voru árið 2000. Sú reynsla sem við höfum fengið af þeirri löggjöf og sú umræða sem hefur orðið og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar hljóta að leggja það á herðar hv. umhverfisnefndar að skoða málið í mjög heildstæðu samhengi við umhverfisverndarstefnu, stóriðjustefnu og annað sem er á dagskránni á Íslandi.

Mig langar einnig að taka undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni sem minntist á hlutverk leyfisveitendanna, m.a. hlutverk sveitarstjórnanna, samkvæmt þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Mér sýnist við fyrstu skoðun að mikil ábyrgð sé lögð á herðar þeirra. Það verður að sjálfsögðu að búa svo um hnútana að sveitarstjórnir um allt land ráði við það verkefni sem þeim er falið, og ef þær ráði ekki við það þá fái þær til þess aðstoð og fjármagn, og að ekki sé enn einu sinni verið að færa verkefni yfir á sveitarstjórnarstigið sem í raun sé hjá einhverjum óumbeðið og kannski þannig um hnútana búið að menn fái lítinn fyrirvara á því hvernig þeir eigi að stjórna málunum.

Hér var minnst á viðaukana í lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þeir eru svo sannarlega umfjöllunarþarfir og kannski það sem stóð mest í a.m.k. okkur stjórnarandstæðingum við setningu laganna árið 2000 hvað skyldi vera í viðaukum og hvað ekki, hvað skyldi vera matsskylt og hvað skyldi vera í viðauka 2, minnir mig að það heiti, sem sagt mat lagt á það í hvert skipti hvort um umhverfismat sé að ræða.

Mig langar til að nefna eitt lítið dæmi. Þó að ég þekki þá framkvæmd ekki til hlítar skilst mér að á Vatnaheiði á Snæfellsnesi sé verið að ráðast í virkjunarframkvæmd, líklega er hún undir 1.000 kw. Eins og hv. þingmenn muna varð þó nokkur umræða um lagningu þjóðvegar um svokallaða Vatnaleið og kallaði á mikla umræðu um rask og umhverfi svæðisins. En nú sýnist mér að verið sé að ráðast í virkjanaframkvæmd á svæðinu sem kallar á heilmikið rask þó lítil sé, vegalagningu og annað það rask hvað varðar vötnin á svæðinu sem ég veit ekki til að hafi verið lagt sérstakt mat á frá þeim sem veita leyfi til slíkrar framkvæmdar. Þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga í umræðunni vegna þess að það eru ekki bara litlu virkjanirnar sem virðast geta dottið af himnum ofan heldur líka stóru framkvæmdirnar. Við þurfum að skoða það mjög vel í umhverfisnefnd hvar við getum sett öryggisventilinn á virkjanaleyfin sem koma ekki lengur fyrir Alþingi samkvæmt nýjum raforkulögum, hvernig hægt sé að koma því þannig fyrir að það sé ekki á valdi stjórnvalda, að koma í veg fyrir stórkostlegar framkvæmdir eða hafa eitthvað um þær að segja. Ég skil málið þannig að hægt sé að halda fram með nýjar hugmyndir um virkjanir, um stækkun álvera, um allt sem að því snýr sem er það helsta sem er í umræðunni — án þess að það sé nógu stór þröskuldur sem þarf að fara yfir þar sem fram fer einhvers konar skoðun á því hvað verið er að gera við umhverfið og hvernig verið er að ráðstafa landinu í heild sinni.

Þetta eru vissulega bara hugleiðingar mínar við 1. umr. um málið en ég held samt að þetta sé eitthvað sem hv. umhverfisnefnd ætti að skoða af fullri alvöru og reyna að fá yfirsýn yfir, stöðu framkvæmda, áætlanir, hugmyndir, yfirsýn yfir stöðuna samkvæmt breytingunum ef samþykktar verða, hverju það breytir fyrir þá sem eiga hlut að máli, sveitarfélögin og aðra, og síðast en ekki síst að skoða það sem hér hefur margoft verið bent á við umræðuna, hlutverk almennings í ferlinu og þeirra sem ekki eiga samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins lögvarinna hagsmuna að gæta. Eins og fram hefur komið hafa nánast engin rök verið færð fyrir því að þrengja þurfi þennan rétt svo mikið sem raun ber vitni.

Ef ég hef skilið þetta rétt þýðir það að ef aðeins er um umhverfisverndarsamtök með 50 félaga eða fleiri að ræða sem hafi almenna umhverfisvernd að markmiði sínu, skili bókhaldi og haldi fund einu sinni ári og allt það — þó að ekki hafi komið fram hver eigi að hafa eftirlit með því — geti ekki svokallaðar einsmálshreyfingar lagt hönd á plóginn eins og hingað til, t.d. hálendishópurinn. Það er bara þannig í samtímanum og í lýðræðislegri umræðu í dag að einsmálshreyfingar skipta einmitt svo miklu máli fyrir upplýsta umræðu, fólkið sem leggur á sig alla vinnuna við að upplýsa hvernig staðið er að tiltekinni framkvæmd á tilteknu svæði, hvort sem það er í Hvalfirði, við Kárahnjúka eða einhvers staðar annars staðar, og upplýsa almenning um það hvað er á ferðinni og veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald við umhverfisvernd.

Mér sýnist að hér sé verið að leggja til að slíkar hreyfingar eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Ég get ekki séð hvernig það á að ganga upp ef við ætlum að starfa í anda þess lýðræðis sem við mærum alla daga.

Frú forseti. Fleira hef ég ekki að segja við umræðuna en vænti þess að hv. umhverfisnefnd fari mjög vandlega aftur yfir frumvarpið og kalli til alla þá aðila sem þörf krefur við þá vinnu.