131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:14]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vil nefna nokkur atriði við 1. umr. um frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hér hafa verið haldnar ágætar ræður og verið bent á mörg mikilvæg atriði sem taka þarf aukið tillit til við endurskoðun laganna. Það er svo sannarlega afturför ef verið er að draga úr eða skerða aðkomu félagasamtaka og einstaklinga að matsferli og umsögnum um það. Það yrði svo sannarlega afturför og í engum takti við þróun þess samtíma sem ég hélt að við værum sammála um að fylgja.

Ég vil í upphafi skora á hv. umhverfisnefnd sem fær málið til meðferðar og hæstv. umhverfisráðherra að stíga mjög varlega til jarðar. Það hefði miklu frekar verið ástæða til þess að gera aðgengi almennings og samtaka greiðara að málinu og vera ekkert að blanda í umræðuna að ekki megi tefja þetta og hitt. Það eru alltaf veikar röksemdir í stórmálum sem þessum sem oft á tíðum er verið að taka ákvörðun um til mjög langrar framtíðar.

Annað atriði sem ég vil draga í umræðuna er hvernig matsskýrslurnar eru unnar og þau vísindalegu og faglegu gögn sem þar eru unnin og dregin til. Ég verð að láta í ljós þá skoðun mína að það sé röng nálgun að fela stórum og sterkum hagsmunaaðilum það hlutverk að vinna rannsóknir og matsskýrslur fyrir mjög umdeildar aðgerðir sem snerta náttúruna, sérstaklega til langs tíma. Það er mjög erfitt að ætlast til þess að stórir og sterkir framkvæmdaraðilar geti unnið slíkt starf hlutlaust þrátt fyrir eindreginn og góðan vilja til þess, enda þekkjum við í gegnum umræðuna á síðustu árum að mælst hefur verið til þess við vísindamenn, sem hafa verið að vinna ákveðin verk samkvæmt bestu vitund, þekkingu sinni og vísindaheiðri, að þeir breyti þeim niðurstöðum og því mati sem þeir hafa unnið til þess að þóknast niðurstöðum sem virkjunaraðilinn eða framkvæmdaraðilinn vill fá. Þá umræðu þekkjum við úr samfélaginu og við þekkjum hana á þingi. Margir þessara aðila eru orðnir einn af stærstu verktökum í vísinda- og rannsóknastarfi á landinu og mér finnst rangt að þeir aðilar skuli jafnframt hafa þetta hlutverk. Rannsóknirnar eiga að vera unnar á ábyrgð almennings, á ábyrgð ríkisins og þjóðarinnar óháð hugsanlegum hagsmunaaðilum sem gætu verið að véla beint um einkahagsmuni sína.

Í framhaldi af þessu vil ég líka benda á hinn stóra veikleika sem er að mínu mati í lögum um mat á umhverfisáhrifum og ekki er heldur tekið á í frumvarpinu, að aðrir möguleikar, önnur gildi þeirra náttúrugæða sem verið er að meta umhverfisáhrif á, önnur gildi til eins og virkjanaframkvæmda, lúta í lægra haldi vegna þess að þeir aðilar sem þar ættu að koma að hafa hvorki fjármagn né afl til þess að gera þær rannsóknir eða úttektir sem hægt er að byggja niðurstöður á.

Ef við tökum t.d. virkjanaumræðuna hvílir sú hlið sem snýr að því að taka vatnsföll eða aðra orkugjafa til virkjunar til annarra nota nánast alfarið á sveitarfélögunum. Ef við förum í stórt verkefni er það virkjunaraðilinn sem rannsakar viðkomandi náttúruauðlind til þess að virkja hana en síðan hvílir það á öðrum aðilum að rannsaka aðrar hliðar á málinu og þeir eru yfirleitt fjárvana. Við kynntumst þeirri umræðu fyrir austan.

Nú blasir umræðan líka við okkur t.d. í Skagafirði sem ég þekki vel. Þar er tilbúin virkjun sem heitir Villinganesvirkjun. Hún er búin að fara í gegnum matsferli og í gegnum Skipulagsstofnun. Þar er einn veikleikinn. Skipulagsstofnun afgreiðir hana og leggst ekki gegn henni en bendir á hina og þessa mjög alvarlega vankanta sem þurfi að fylgjast með eftir á. Það er nauðsynlegt að fylgjast með skaðanum eftir á. Það er því ekki tekið á málunum fyrir fram. Mat á umhverfisáhrifum þeirrar virkjunar sem nú stendur alveg tilbúin og bíður bara eftir því að sveitarfélagið gefi virkjunarleyfi fyrir hana var mjög afmarkað. Það er ekkert rannsakað hvaða áhrif virkjunin hefur á svæðið fyrir neðan virkjunarstaðinn, á allt ósa- og vatnasvæði Héraðsvatna til sjávar, en talið er nauðsynlegt að fylgjast mjög náið með hvað muni gerast ef virkjað verður. Hvers konar vinnulag er þetta? Auk þess er þarna virkjun í miðju vatnasvæði þar sem á að stífla stór gljúfur, náttúruperlur sem þegar eru nýttar í vinsælar og heimsfrægar fljótasiglingar. Á að stífla þetta eina gljúfur? Þetta hefur inngrip í allt vatnasvæði héraðsins sem ekki er tekið á. Það er því litið mjög afmarkað á stífluna og mat á umhverfisáhrifum nær sáralítið út fyrir stíflustæðið. Hvaða vinnubrögð eru þetta? Síðan er bara sagt: Nauðsynlegt er að fylgjast mjög náið með hvað gerist fyrir neðan. Svo eru virkjunaraðilarnir það sterkir að þeir beita þrýstingi með ýmsum hætti til að koma verkinu áfram, reyna t.d. að fara fram hjá sveitarstjórn eins og mögulegt er, sem er hinn lögformlegi aðili sem gefur virkjunar- og skipulagsleyfið. Sveitarfélagið hefur ekkert fjármagn til þess að geta bent á aðra möguleika, önnur gildi svæðisins, eða að matsskýrslan hafi ekki verið unnin nógu þokkalega hvað varðar önnur atriði í héraðinu. Þegar það gefur að lokum virkjunarleyfið verður það því bara að styðjast við þessa mjög takmörkuðu og sérhæfðu matsskýrslu.

Ég tel því mjög mikilvægt til þess að þetta verði í raun virkt, að sveitarfélögin sem bera þá ábyrgð að gefa út virkjunarleyfið, meta málið í heild sinni bæði út frá náttúrulegum og efnahagslegum gildum fyrir sitt svæði og fyrir landið allt, fái miklu sterkari stöðu til þess að fá fjármagn. Ef virkjunaraðilinn á að fá rétt til þess að rannsaka svæðið til virkjunarframkvæmda ætti sveitarfélagið að fá jafna upphæð til þess að rannsaka svæðið til annarra hluta og í heild sinni. Það ræður enginn við fjármagn stórra örfárra fyrirtækja eins og hér er á orkumarkaðnum, það ræður enginn við að meta málin frá öðru sjónarhorni en þau hafa lagt upp með.

Ég tel þetta vera hinn stóra veikleika í frumvarpinu, að ekki er tekið á þeim möguleikum að skoða gildi þeirra atriða sem verið er að meta til annarra hluta en markmiðið sem er sett af framkvæmdaraðilanum. Matsrannsóknirnar og -aðgerðirnar ættu því ekki að vera í höndum hagsmunaaðila, heldur á höndum hins opinbera. Það mundi líka skapa aukið frjálsræði og frelsi hjá þeim vísindamönnum sem eru að vinna þau verk, að þeir geti unnið það svo sannarlega í friði á grunni vísindalegrar þekkingar sinnar og vísindalegum heiðri og þurfi ekki að vera undir pressu þeirri sem við þekkjum í umræðunni, eins og ég hef áður vikið að, bæði á þingi og í samfélaginu.

Frú forseti. Ég vildi koma þessu sérstaklega að og vitna að öðru leyti til ágætra ræðna hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, Þórunni Sveinbjarnardóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur til almennra þátta sem lúta að þessum málum, en ítreka að eigi matsferlið í raun að vera virkt sem við treystum á verða hagsmunir framkvæmdaraðilans til ákveðinna skilgreindra þátta að vera unnir á vísindalegan og heiðvirðan hátt, en einnig aðrir þættir. Almenningur verður að eiga sína aðkomu og sveitarfélögin sem gefa endanlega út leyfi verða að hafa styrk og fá formlega stöðu til þess að geta framkvæmt þær rannsóknir og athuganir sem þau þurfa að gera til þess að geta tekið ákvörðunina með tilliti til bæði sérhagsmuna og heildarhagsmuna út frá hinu víðasta sjónarhorni. Það skortir mikið á að svo sé.

Ég skora því bæði á hæstv. umhverfisráðherra og hv. umhverfisnefnd að taka þessa þætti vel til skoðunar við endurskoðun á frumvarpinu þegar það fer til nefndar til að tryggja að vinnan sé fagleg og heildstæð.