131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[12:56]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Ég tel að umræðan hafi verið góð og málefnaleg og í henni komið fram margt sem nefndin þarf að skoða og enn fleira sem skoða þarf almennt. Þar vil ég sérstaklega nefna þátt tveggja hv. þingmanna úr Norðvesturkjördæmi sem nefnt hafa brýn mál og spyrja hvernig koma megi fyrir betri kynningu og háttalagi samkvæmt þessum lögum í tengslum við þau mál. Ég held að það þurfi hreinlega að skoða þau mál og ég fagna því að mér virðist hæstv. umhverfisráðherra taka því fordómalaust, hvort sem það þarf að gera með breytingu á lögum, brýningu í lögunum, með sérstökum reglugerðarákvæðum eða með vinnulagsreglum sem umhverfisráðuneytið eða undirstofnanir þess kynnu að semja til leiðbeiningar.

Ég vil líka segja það strax að ég held að það sé rétt hjá hæstv. umhverfisráðherra að þetta er flókið mál og mikilvægt. Ég fagna því að hún stefnir að sátt um málið í vinnu þingsins. Þetta er vel sagt og ég held að vinna í nefndinni takist vel ef hún tekur mið af orðum ráðherrans.

En varðandi einstaka hluti er ég ekki ánægður með svör ráðherra um úrskurðarnefndina. Það hefur út af fyrir sig ekki verið gagnrýnt, a.m.k. ekki sterklega, að umhverfisráðherra eigi þátt í skipan nefndarinnar, að umhverfisráðherra skipi jafnvel formann hennar. Það sem hefur verið gagnrýnt er hlutur ráðherrans, að tveir nefndarmenn af fimm skuli skipaðir af honum beint án sérstakra skilyrða, nema um hæfi formanns, og að þeir tveir, ef formaðurinn vill því að hann er mikilsráðandi í nefndinni, geti myndað sjálfa úrskurðarnefndina og haft þar meiri hluta. Það er einkum þetta sem hefur verið gagnrýnt. Ég hef ekki fengið svör við því hvers vegna svo þarf að vera.

Auðvitað mætti einnig spyrja tæknilegra spurninga um af hverju Hæstiréttur eigi að skipa hina þrjá. Nú er tiltekið sérstaklega hvaða verksvið þeir skuli hafa og tveir þeirra eru á verksviði sem Hæstiréttur hefur ekkert með að gera. En það skulum við ræða betur í nefndinni.

Mér fannst jafnframt leiðinlegt að fá ekki almennileg svör frá hæstv. umhverfisráðherra þegar rætt var um kæruskilyrðin því að svörin sem hæstv. umhverfisráðherra gaf voru nákvæmlega þau sömu og fyrrverandi umhverfisráðherra gaf í fyrra, þ.e. að fara að tala um útlönd. En útlönd eru ekki Ísland. Ísland er Ísland og á Íslandi eiga að gilda þau skilyrði í þessum efnum og öðrum sem helgast af því hver við erum og hvert ástandið er hér. Við höfum sem betur fer haft mjög víðtækan rétt hingað til. Það er engin ástæða, svo að fram hafi komið, til að þrengja hann, nema sú að það sé svona einhvers staðar annars staðar.

Í máli hæstv. umhverfisráðherra kemur fram að hún vilji tryggja rétt almennings til umsagnar á þessu sviði. Ég efast ekkert um þann vilja og spyr þess vegna: Af hvaða ástæðum? Er það vegna vinnutilhögunar, vegna þess að það hafi gengið illa hingað til? Eða hvaða ástæður eru fyrir því að Alþingi þarf að setja umhverfissamtökum sérstök skilyrði um hvernig þau eigi að vera í laginu til að geta haft sitt að segja um þessi efni? Það er engin þörf á þessu.

Ég nefndi sérstakt dæmi um það að þetta væri hugsanlega þegar farið að valda óheppilegum áhrifum. Ég nefndi dæmi um að samtök sem voru stofnuð fyrir nokkrum vikum og álitu að þau þyrftu að haga sér á tiltekinn hátt vegna væntanlegra laga þar sem eðlilegra hefði verið að haga félagsstarfinu með öðrum hætti sem hentar þeim samtökum betur. Mér þykir leitt að hafa ekki heyrt betri rök fyrir þessu.

Um tilskipunina er það að segja að ef ekki á að leggja fram enn eitt frumvarp um mat á umhverfisáhrifum á næsta þingi, þegar tilskipunin hefur verið innleidd í íslensk lög, þá þarf nefndin að taka það að sér að fara yfir vinnuna að því í þessum ráðuneytum tveimur og athuga hvernig sú vinna fellur að frumvarpinu. Ég hef ekki séð nein gögn og ekki heyrt neitt annað en ummæli fyrrverandi og núverandi hæstv. umhverfisráðherra um að þessi tilskipun sé í lagi. Þessi tilskipun skiptir hins vegar mjög miklu vegna þess, eins og bent hefur verið á í umræðunni, að hún kemur í framhaldi af Árósasamningnum.

Ef hæstv. umhverfisráðherrum, núverandi og fyrrverandi, finnst sérkennilegt að athyglin beinist að þeirri tilskipun þá er svarið það ... (Gripið fram í.) Ég átti við tvo síðustu umhverfisráðherra en ekki hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Júlíus Sólnes, Eið Guðnason eða aðra þá sem því starfi hafa sinnt. En ástæðan fyrir því að athyglin beinist að tilskipuninni er að sjálfsögðu sú að tortryggnin er eðlileg. Íslensk stjórnvöld hafa ekki treyst sér til að gerast aðilar að þeim samningi sem tilskipunin byggist á, Árósasamningnum. Það hefur verið spurt um það fram og aftur á þinginu hvers vegna svo sé ekki. Svörin hafa aldrei fengist. Og fyrst íslensk stjórnvöld eru hrædd við að verða aðilar að Árósasamningnum sjálfum þá er eðlilegt að tortryggja afstöðu sömu stjórnvalda til þeirrar tilskipunar Evrópusambandsins sem samningurinn byggist á. Þannig er það og þá þarf að ganga eftir því í nefndarstarfinu hvernig þessu er háttað.

Mér finnst líka að í máli annarra ræðumanna hafi komið fram athyglisverð atriði. Ég vil kannski sérstaklega nefna það sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson minntist á, þar sem hann tók undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur frá því í fyrra í umræðum og í nefndinni, að styrkja þurfi minni sveitarstjórnir til að geta komið almennilega fram í þessum efnum, til að geta farið í gegnum rannsóknir og mat sem fyrir liggur og tekið þátt í ferlinu eins og þær eiga að gera. Á sveitarstjórnarstiginu eru ósköp einfaldlega vanmáttugar sveitarstjórnir víða um land sem ekki geta uppfyllt kröfurnar.

Ég vil líka segja varðandi almennt atriði sem hv. þm. Jón Bjarnason vakti athygli á, að það er að sjálfsögðu raunverulegt vandamál að rannsóknirnar séu á vegum framkvæmdaraðila. Þótt því sé mætt með því að Skipulagsstofnun sé gert að fara yfir þessar rannsóknir og heimta betri rannsóknir og meiri þar sem um það er að ræða þá er þetta galli. Við höfum dæmi um að rannsóknarmenn hafi verið settir út af sakramentinu hjá framkvæmdaraðila sem ekki hefur verið ánægður með rannsóknir þeirra. Rannsóknarmenn eru sem sé háðir forsögn framkvæmdaraðilans og vilja hans um hvað eigi að koma út úr rannsóknunum og það getur ekki talist gott þótt Skipulagsstofnun eigi að vera mótvægi í þessu. Það er spurning hvort með einhverjum hætti sé hægt að losa um þessi tengsl þó að ég taki undir að mér þyki heppilegt að framkvæmdaraðili kosti rannsóknir þær sem um er að ræða.

Ég vil aðeins að lokum fagna, ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, hinum jákvæðu ummælum hæstv. ráðherra um náttúrufarskortin sem skipta munu okkur verulegu máli í framtíðinni. Ég minni á tillögur hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um þau frá því í fyrra. Ég sé að í hólf okkar hefur borist bréf frá Náttúrufræðistofnun Íslands um ársfund sem á að halda eftir viku. Helmingurinn af honum er um náttúrufarskortin, sem er mikið áhugamál Náttúrufræðistofnunar. Hún telur brýnt að vinna þau vegna þess að án þeirra er ekki hægt að leggja almennilegt mat á hin frægu umhverfisáhrif sem hér er um rætt.

Að lokum vil ég ítreka að það hefur lýst sér í umræðunni að við höfum áhyggjur af framtíðinni í þessum efnum. Við höfum kannski meiri áhyggjur af henni núna en áður. Eftir Kárahnjúkavirkjun sem hér var samþykkt á þinginu við miklar deilur — um virkjunina ríkir jafnvel enn þá djúpstæður ágreiningur í samfélaginu, jafnvel þó að framkvæmdir séu hafnar og lítið meira við því að gera — var því heitið af hálfu stjórnvalda, virkjunarmanna og þeirra sem einhvern veginn lentu Kárahnjúkavirkjunarmegin í þessari umræðu allri, að við mundum taka upp önnur vinnubrögð og skapa sátt um framtíðina. Sú sátt hefur lýst sér þannig, í vor, sumar og haust, að yfir dynur hver hugmyndin, tillagan og hver áformin á fætur öðrum um virkjanir. Þar er ekki sinnt um umhverfisþáttinn og almenningur virðist lítið eiga að hafa um þau mál að segja. Þetta þurfum við að skoða vel hér í þinginu, m.a. í tengslum við málið sem hér um ræðir.