131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:47]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Hér í dag er rædd skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna. Þetta mál er mjög alvarlegt og ef rétt reynist verða menn að standa ábyrgir fyrir gjörðum sínum.

Til ársins 1994 var verð á olíu og bensíni undir verðlagsákvæðum, þ.e. lögvarið samráð. Auðvitað tekur það einhvern tíma fyrir fyrirtæki að laga sig að breyttum aðstæðum en það afsakar ekki atburðarásina. Í kjölfar þessarar skýrslu hafa ýmsir farið um bæinn með snærishönkina undir hendinni til að hengja þá aðila sem hafa verið í skotlínu í þessum málum. Slíkt finnst mér óviðfelldið og við verðum að muna að enginn er sekur fyrr en sekt er sönnuð. (Gripið fram í.)

Fullyrðingar í skýrslu Samkeppnisstofnunar eru glannalegar að mati dr. Tryggva Þórs Herbertssonar og dr. Jóns Þórs Sturlusonar sem segja í skýrslu til Skeljungs hf. að ekki sé, með leyfi forseta, „með nokkru móti hægt að draga þá ályktun að háttsemi olíufélaganna á árabilinu 1998 til 2002 hafi leitt til minni samkeppni og aukinnar álagningar ...“ Enn fremur segja þeir að mat Samkeppnisstofnunar „á meintum ávinningi Skeljungs hf. [...] sé algjörlega órökstutt og að líkur séu á að hækkun framlegðar sem lögð er til grundvallar eigi sér aðrar og eðlilegar skýringar ...“

Þetta segir okkur að skiptar skoðanir eru um niðurstöðu þessa máls, þ.e. sektirnar, þrátt fyrir að viðurkennt sé að ólöglegt samráð hafi átt sér stað. Þegar þetta er orðin staðreynd finnst mér að það þurfi að koma þeim fjármunum beint til viðskiptavina olíufélaganna, ekki beint í ríkissjóð.

Í framhaldi af þessu máli veltir maður fyrir sér samruna eða samráði félaga, eða samruna og hagræðingu. Það má nefna t.d. matvælamarkaðinn, lyfjamarkaðinn og fleira sem þyrfti að skoða í framhaldi af þessu máli.