131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 1997 báðu þingmenn Samfylkingarinnar um skýrslu frá viðskiptaráðherra um hvort olíufélögin gætu í krafti markaðsstöðu og verðsamráðs samið um skiptingu markaðar og verðlagningu á vöru og þjónustu. Vegna fjárskorts gat Samkeppnisstofnun ekki ráðist í þetta verkefni og taldi sig þurfa til þess 10–15 millj. kr. Stjórnarliðar felldu tillögu okkar um að stofnunin fengi þetta fjármagn.

Það var þjóðfélaginu dýrt að fella þá tillögu. Það gaf olíufurstunum athafnafrelsi til að féfletta almenning miskunnarlaust fjórum árum lengur í einu grófasta og svívirðilegasta þjófnaðarmáli sögunnar. Þannig rökuðu þessir forkólfar olíufélaganna til sín mörgum milljörðum frá almenningi, og tap samfélagsins í heild skiptir tugum milljarða.

Það verður prófsteinn á hvort við búum í bananaþjóðfélagi eða siðmenntuðu lýðræðisþjóðfélagi þar sem allir eru jafnir fyrir lögum hvort olíufurstarnir verða látnir sæta ábyrgð. Refsilöggjöfin á að ná til þeirra eins og annarra sem brjóta af sér og óþolandi er að fyrning sekta verði þeirra skjól.

Ránsfengnum verða olíufélögin líka að skila til baka í formi skaðabóta og sekta í samræmi við gífurlegt umfang þessa lögbrots og það verður að koma í veg fyrir að olíufurstarnir velti sektargreiðslum sínum yfir á almenning.

Þátt borgarstjórans í þessu máli er ekki hægt að verja. Hann verður að axla sína ábyrgð og ég fæ ekki séð hvernig Þórólfi Árnasyni er sætt sem borgarstjóra. En það er ósanngjarnt að gera hann að blóraböggli meðan öðrum er hlíft. Ég kalla eftir yfirheyrslum fjölmiðla yfir höfuðpaurunum sjálfum, ég kalla eftir að þeir beri fulla ábyrgð sem í skjóli stjórnarflokkanna hafa skipt markaðnum á milli sín árum saman, makað þar sjálfir krókinn og látið almenning borga brúsann af ósvífnum lögbrotum sínum sem skaðað hafa allt samfélagið.