131. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2004.

Skýrsla Samkeppnisstofnunar um verðsamráð olíufélaganna.

[13:56]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Skýrsla Samkeppnisstofnunar sem hér er rædd er á köflum eins og reyfari, því miður. Stórfyrirtæki halda skipulega uppi verði á olíu og bensíni og raka að sér hagnaði. Þau gera þetta í skjóli helmingaskipta milli ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Menn tala hér um 40 milljarða, menn tala um 80 milljarða í fréttum í dag sem íslenskt samfélag hafði verið hlunnfarið um. Hverjir borga? Atvinnulífið, einstaklingar, heimilin í landinu, sérstaklega þeir sem búa úti á landi, útgerðin, flutningsaðilarnir. Kannski er ekki að undra þó að flutningskostnaður hafi hækkað langt umfram verðlag síðustu ár. En þessir sömu aðilar áttu jafnvel hlut í viðkomandi flutningsfyrirtækjum svo að siðferðið var nú ekki upp á marga fiska. Bændur, landbúnaður er einn af stærri notendum olíu og bensíns. Var á bætandi að íþyngja rekstri þeirra með þessum hætti eins og hér hefur verið lýst ef satt reynist og Samkeppnisstofnun hefur gert grein fyrir?

Þetta er gríðarlega alvarlegt mál. Hvernig verður þetta endurgreitt? Ætlum við bara að kasta öllum syndum aftur fyrir okkur og segja: Ja, nú ætlum við að sjá eftir þessu og lofum bót og betrun?

Það er fallegt að iðrast en hvernig ætlum við að greiða þeim sem hafa verið hlunnfarnir? Er nokkur munur á þessu og öðrum þjófnaði í raun? Líti hver í sinn barm. Er þetta nokkuð annað? Og hvernig bætum við þá þeim sem urðu fyrir þessum þjófnaði? Það verður náttúrlega að endurgreiða þeim það. Hver er tryggingin fyrir því að þetta sé ekki lengur við lýði í fákeppnissamfélaginu á fjármálamarkaðnum, tryggingamarkaðnum, vöru- og þjónustumarkaðnum, hinum einkavædda markaði? Hver er tryggingin fyrir því? Sömu aðilar eru þarna innan búðar víðast hvar. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Hér þarf heldur betur að taka til meira en að iðrast.