131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Húsnæðislán bankanna.

[15:16]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til þess að þeir ráðherrar sem málið tekur til skoði það sérstaklega og þá hvort ástæða er til að skerpa á lögum til að koma í veg fyrir grófa mismunun af þessu tagi.

Bankar og fjármálastofnanir hafa skyldum að gegna gagnvart samfélaginu. Slíkar stofnanir eiga að þjónusta það. Það hefur oft verið sagt, sérstaklega af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, að ríkið eigi ekki að vera að vasast í því sem einkafyrirtæki geti gert eins vel. Nú er að koma á daginn á hvern hátt bankarnir þjónusta landsmenn, mismuna tilteknum byggðasvæðum og nú á að mismuna sjúku fólki sem er haldið illkynja sjúkdómum. Mér finnst full ástæða til að löggjafarvaldið taki þessi mál til skoðunar, og einnig framkvæmdarvaldið og allir þeir sem eiga að gegna eftirlitshlutverki.