131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Gatnamót Kringumýrarbrautar og Miklubrautar.

[15:19]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns vil ég segja að í fyrsta lagi liggur ekki fyrir á mínu borði hver kostnaður við undirbúning og hönnun þessara mislægu gatnamóta við Kringlumýrarbrautina er en það er alveg ljóst að búið er að eyða verulegum fjármunum í undirbúning í nokkuð langan tíma. Það lá fyrir að verulegur hluti af frumáætlun hafði verið unninn og ég geri mér í hugarlund að það séu háar fjárhæðir sem búið er að eyða í þetta.

Staða verksins gagnvart þeim áformum sem uppi voru um mislæg gatnamót er að hætt var við þau vegna skipulagsástæðna og afstöðu Reykjavíkurborgar. Engu að síður er áfram unnið að þessu verki í þeim tilgangi að ná fram í fyrsta lagi bráðabirgðaaðgerð sem bætir verulega umferðarflæðið þarna sem var á grundvelli tillögu hönnuða. Ég tel það þó bráðabirgðaaðgerð sem vonandi verður hægt að fara lengra með á næsta ári. Við þurfum að hugsa til framtíðar í þessu og staða málsins er sú að ég geri ráð fyrir því að Vegagerðin haldi áfram að vinna að undirbúningi mislægra gatnamóta í þeim tilgangi að þegar tími gefst til og færi gefst í samstarfi við borgaryfirvöld verði hægt að fara í þessa framkvæmd, þriggja hæða mislæg gatnamót sem eru að allra mati sem þekkja vel til mjög góð lausn og getur mjög vel fallið að þessum gatnamótum.

Ég vonast til að í framtíðinni verði hægt að fara í þá framkvæmd og að því er unnið á vegum samgönguráðuneytis og Vegagerðar.