131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls grunnskólakennara.

[15:28]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og skora á hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir því að fram komi tillaga frá stjórnvöldum um hvernig hægt verði að bæta börnunum upp þann mikla skaða sem orðið hefur á skólagöngu þeirra þar sem tapast hafa heilar sex vikur af þessu skólamissiri.

Hann nefndi það tóm sem launanefnd sveitarfélaga og samninganefnd kennara þurfa að fá til að ræða málin og í því samhengi vildi ég inna hann eftir því hve langan frest er hægt að gefa þeim til viðbótar áður en ríkisstjórnin kemur að deilunni með einhverjum hætti, t.d. eins og við höfum bent á hér að gera sveitarstjórnunum grein fyrir því að gert verði upp við þær með svo myndarlegum og sanngjörnum hætti af hálfu hins opinbera svo að þau geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum og samið við kennara með réttmætum og sanngjörnum hætti eins og ríkisvaldið gaf tóninn um með samningunum við framhaldsskólakennara fyrir nokkrum missirum. Þessar stéttir eiga að og verða að fylgjast að.