131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Afsláttur af raforkuverði.

[15:30]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ný raforkulög taka gildi 1. janúar næstkomandi og þá breytist margt í rekstrarumhverfi raforkufyrirtækja. Hæstv. iðnaðarráðherra var falið það verk að setja fjölmargar reglugerðir. Sumar hverjar eða kannski engin er komin fram.

Það hefur alltaf verið vitað líka að margt ætti eftir að koma upp, því miður, ýmis vandamál í sambandi við framkvæmd þessara laga. Eitt þeirra atriða sem er að koma upp núna og hefur verið rætt um er að afslættir Landsvirkjunar og t.d. Rariks eru að falla út sem m.a. hefur það í för með sér að t.d. fiskeldisfyrirtæki munu þurfa að borga 100% meira í raforkukostnað en á þessu ári ef ekkert verður að gert. Þetta er, eins og ég áður sagði, vegna þess að Landsvirkjun gefur ekki lengur afslátt til Rariks og Rarik bætir ekki við svo ég taki dæmi. Það mun hafa þessi áhrif. Í kjördæmaviku okkar kom m.a. fram í Norðausturkjördæmi, virðulegi forseti, að raforkukostnaður Silfurstjörnunnar í Öxarfirði mundi hækka úr 25 milljónum í 50 milljónir ef þetta gengur fram.

Sama má segja um garðyrkjubændur þó ég sé ekki með tölur á hraðbergi í þeim efnum. En þar munu afslættir líka detta út og þá mun raforkukostnaður þeirra hækka mikið nema eitthvað verði gert og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég varð ekki var við að iðnaðarráðherra hafi mikið fjallað um þetta eða þá að í meðförum iðnaðarnefndar á síðasta þingi hafi mikið verið fjallað um málið eða það komið upp. Þess vegna langar mig að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra hvernig ráðherra hyggist bregðast við þessum vanda eða hvað ríkisstjórnin ætli að gera í þessu máli sem dúkkar upp eftir nokkrar vikur.