131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Afsláttur af raforkuverði.

[15:32]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að það eru taka gildi ný lög um raforkuumhverfið sem hafa gríðarlega miklar breytingar í för með sér og segja má að við séum að fara inn í gjörbreytt umhverfi þar sem allt verður meira og minna uppi á borðinu og sýnilegt. En í því umhverfi sem við erum að fara út úr hefur ýmislegt óljóst verið viðhaft og engin hefur í raun vitað nákvæmlega hvernig raforkuverð hefur orðið til. Þetta mun breytast með nýjum raforkulögum. Það er jákvætt að mínu mati. En það er hins vegar alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að það hefur þær afleiðingar varðandi ýmislegt sem hefur verið vitað og varðar t.d. afslætti og jafnvel flutninga á afgangsorku og annað slíkt, að ekki verður hægt að framkvæma með sama hætti í nýju lögunum þegar þau hafa tekið gildi. Það er áhyggjuefni út af fyrir sig. En að sjálfsögðu verður unnið í því og þegar hefur hafist ákveðin vinna sem snýr að því að reyna að átta sig á hvernig hægt er að koma til móts við þau mikilvægu fyrirtæki sem þarna eiga í hlut og hv. þingmaður nefndi.

Ég hef átt nokkra fundi bæði með fulltrúum þessara fyrirtækja og eins innan ráðuneytis um þetta málefni og að sjálfsögðu er þetta líka málefni landbúnaðarráðuneytisins þar sem þessi fyrirtæki heyra undir það. Ég vil lýsa yfir áhyggjum eins og hv. þingmaður gerði en mun hins vegar beita mér eins og mér er unnt til að sjá til þess alla vega að þessi starfsemi leggist ekki af.