131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Afsláttur af raforkuverði.

[15:34]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að upplýsa þingheim um að unnið sé að þessu og að komið verði til móts við þessi fyrirtæki. Ég vona sannarlega að það verði gert.

Annað atriði sem ég vil spyrja um er af svipuðum toga. Það er vegna sömu fyrirtækja sem munu þá fella niður afslætti sína sem hafa verið liður í því að lækka húshitunarkostnað um 11 þúsund Íslendinga mest til sveita með því að niðurgreiða rafhitunarkostnað.

Í fjárlögum á þessu ári eru 860 milljónir og áætlaðar 890 milljónir á næsta ári. Þegar afslættir þessara fyrirtækja falla niður mun húshitunarkostnaður 11 þúsund Íslendinga sem allir búa í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi, þ.e. landsbyggðarkjördæmunum, hækka nema niðurgreiðslurnar verði auknar töluvert mikið. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þessar 30 milljónir sem þarna eru settar inn dugi ekki til að koma til móts við þessa niðurfelldu afslætti þessara orkufyrirtækja. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Verður brugðist við þessum vanda á svipaðan hátt og lýst var hér áðan?