131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

[15:38]

Gísli S. Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma þessari fyrirspurn að. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. samgönguráðherra og spyr um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi lækkun eða niðurfellingu vegskatts um Hvalfjarðargöng.

Eiga Íslendingar, og þá þeir sem mestra hagsmuna hafa að gæta, íbúar Norðvesturkjördæmis, von á aðgerðum í þessa átt? Ef svo er, hvenær?

Það er líklegt að kostnaður vegna samgöngubóta um Hvalfjörð, ef af hefði orðið, nemi þeim kostnaði sem varð þegar stofnað var til Hvalfjarðarganganna. Þess vegna hlýtur að vera sanngjörn krafa allra Íslendinga og sérstaklega þeirra sem eiga ríkastra hagsmuna að gæta að vegskatturinn verði felldur niður. Þetta og mál sem lúta að Arnkötludalsleið eru ein ríkustu samgöngumálin sem að okkur lúta, íbúum Norðvesturkjördæmis. Því spyr ég um vegskatt um Hvalfjarðargöng.