131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[15:56]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, og fagna því að þetta frumvarp sé komið hér fram. Við sem vorum hér á síðasta kjörtímabili fylgdumst mjög vel með framgangi þingsályktunartillögu hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur sem var 1. flutningsmaður tillögu um að skipa nefnd sem átti að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga á Íslandi og bera saman við stöðu mála erlendis. Við vitum að töluverður áhugi er á þessu frumvarpi úti í samfélaginu, bæði meðal þess stóra hóps fólks sem málið varðar og mundi falla undir skilgreiningu græðara og jafnframt þess stóra hóps fólks sem nýtur þjónustu þeirra stétta sem falla undir græðara. Það kemur m.a. fram í skýrslu frá þeirri nefnd sem skipuð var í kjölfar samþykktar þingsályktunartillögunnar að á 15 ára tímabili, frá 1985 til 2000, fjölgaði þeim sem nýttu sér þessa þjónustu græðara úr 6% og upp í tæplega 30%. Það segir að þetta meðferðarform nýtur mikillar velvildar og álits meðal þjóðarinnar.

Mig langaði að draga fram að í nefndaráliti hv. heilbrigðis- og trygginganefndar með þingsályktunartillögunni þegar hún kom til afgreiðslu í hinu háa Alþingi sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Nefndin telur brýnt að ráðist verði í þá vinnu sem tillaga þessi gerir ráð fyrir. Ljóst er að svokallaðar óhefðbundnar lækningar eru stundaðar hér á landi í talsverðum mæli með þegjandi samþykki yfirvalda. Það skortir tilfinnanlega regluramma um þessa starfsemi svo að unnt sé að hafa eftirlit með henni og vernda hagsmuni notenda þessarar þjónustu sem og starfsöryggi og heiður þeirra sem sannanlega hafa aflað sér þekkingar til að veita hana. Segja má að þessi starfsemi hafi hingað til farið fram í einhvers konar lagalegu tómarúmi með afskiptaleysi yfirvalda og er mikilvægt að ráða bót á því vegna eðlis þjónustunnar. Áður en af því getur orðið verður þó að vinna ákveðna grunnvinnu. Tillaga þessi gengur út á að ráðist verði í þessa vinnu og þannig stigið fyrsta skrefið að því markmiði að mynda lagaramma utan um þessa starfsemi.“

Síðan segir einnig í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin vill koma þeirri afstöðu sinni á framfæri að ekki eigi að leggja áherslu á löggildingu starfsréttinda í þessum greinum heldur geti viðurkenning náms og réttinda verið nægjanleg í flestum tilvikum. Í slíkum viðurkenningum felst mikilvæg neytendavernd.“

Í rauninni má segja að það frumvarp sem við erum núna að fjalla um fari nákvæmlega eftir þeim ramma og þeim hugmyndum sem nefndin lagði til.

Í mínum huga er tilgangur þessa nýja frumvarps í fyrsta lagi að skilgreina hvað felst í heilsutengdri þjónustu græðara og í öðru lagi að gæta hagsmuna neytandans. Það er mjög mikilvægt og þýðir m.a. að þjónusta sem er boðin sé viðurkennd af stjórnvöldum og uppfylli ákveðin skilyrði um gæði og öryggi. Hún á líka að fela í sér að þjónustan sé háð eftirliti stjórnvalda, að þeir sem veita þjónustuna séu skráðir og hafi grundvallarþekkingu í ákveðnum greinum heilbrigðisvísinda og hafi undirgengist tilteknar reglur, þar á meðal siðareglur sem eiga að tryggja hag neytandans. Hér á ég við siðareglur viðkomandi stéttar. Síðan er líka mjög mikilvægt að upplýsingar liggi fyrir þannig að almenningur geti áttað sig á hvaða einstaklingar eru viðurkenndir af stjórnvöldum og hverjir eru það ekki. Loks er í þriðja lagi tilgangur frumvarpsins að viðurkenna stöðu græðara í íslensku samfélagi og kveða á um réttindi þeirra og skyldur og skapa þeim betri starfsaðstæður.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að Danir og Norðmenn hafa farið svipaða leið og hér er lögð til og hafa nýlega sett lög um græðara sem eru á svipuðum nótum, þ.e. að viðurkenna græðara með því að þeir fái skráningu sem slíkir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hér er auðvitað gerður greinarmunur annars vegar á löggiltum heilbrigðisstéttum sem meðhöndla sjúka svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar og fleiri heilbrigðisstéttir sem fá starfsleyfi hjá heilbrigðisráðuneytinu, og hins vegar græðurum sem eru skráðir, reyndar er skráningarkerfið frjálst samkvæmt þessu frumvarpi sem ég tel vera alveg viðunandi. Það er því gerður ákveðinn greinarmunur á þessu.

Mig langar í örfáum orðum að fjalla um stöðu þess sem kallað er óhefðbundnar lækningar í öðrum löndum, en t.d. í Kína, Víetnam og Kóreu er það sem við köllum óhefðbundnar lækningar hið hefðbundna. Meira að segja í skýrslu eða öllu heldur ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til stjórnvalda um hvernig haga eigi þessum málum þá er talað um „traditional medicine“, ekki óhefðbundnar, „untraditional“, heldur traditional, þannig að það sem er óhefðbundið hjá okkur er hefðbundið í mörgum öðrum ríkjum, m.a. Austurlanda. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég datt ofan á eru á sjöunda hundrað þúsund læknar í Kína sem mundu falla undir skilgreiningu óhefðbundinna lækninga, sem væru þá hefðbundnar hjá þeim, og sú meðferð sem þeir veita er að fullu greidd af sjúkratryggingakerfinu.

Síðan er líka vert að benda á að í Ástralíu og Indlandi og fleiri stöðum er háskólanám fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga, lyfjafræðinga og fleiri í óhefðbundinni meðferð. Rannsóknastofnanir í óhefðbundnum meðferðarformum eru t.d. starfandi í Noregi, Japan, Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum en einnig í Indlandi, Indónesíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum svo fáein lönd séu nefnd.

Þetta innlegg mitt er til þess að undirbyggja það að við förum varlega í því að gefa til kynna að þetta sé ósannreynd og óvísindaleg meðferð. Ég vil því gera sérstaklega að umfjöllunarefni 2. gr. frumvarpsins þar sem segir að þessi meðferð byggist fremur á hefð og reynslu en gagnreyndum vísindalegum niðurstöðum. Það er dálítil hætta á að verið sé að gera lítið úr þeim raunverulega árangri sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að er ekki lakari en árangur af því sem við köllum hefðbundnar meðferðir.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til stjórnvalda eru m.a. gefin dæmi um rannsókn þar sem tveir hópar sjúklinga með mismundi sjúkdóma en samt sem áður sambærilegir fóru í meðferð þar sem annar hópurinn fékk það sem við mundum kalla hefðbundna meðferð, lyfjameðferð og slíkt með framleiddum lyfjum, og hinn hópurinn fékk meðferð sem mundi falla undir óhefðbundna meðferð. Niðurstaðan af þessu eftir eitt ár var að óhefðbundna meðferðin var ódýrari. Það voru færri aukaverkanir af óhefðbundinni meðferð, það var meiri fylgni milli álits sjúklinga á árangri og raunverulegs árangurs meðferðar og viðurkenning sjúklings á hlutverki meðferðaraðila í að leysa heilbrigðisvandann var einnig meiri, og það var 53–63% hagkvæmara að beita óhefðbundinni meðferð með tilliti til árangurs en hefðbundinni. Þetta var bæði hagkvæmara og árangursríkara þannig að við skulum aðeins staldra við þegar við segjum eða gefum í skyn að meðferðin sé óvísindaleg.

Þarna er hins vegar verulegur óplægður akur og það er oft erfitt að finna aðferðir til að rannsaka áhrif tiltekinnar meðferðar en það er mikil þróun í gangi í þessum efnum. Þess vegna beini ég því til hv. heilbrigðisnefndar að hún skoði orðalag 2. gr. frumvarpsins þannig að ekki sé verið að gera lítið úr þessum meðferðum. Ég er þeirrar skoðunar og ég veit að margt af því sem mundi falla undir starfssvið græðara er í rauninni framkvæmt af heilbrigðisstéttum sem hluti af starfi þeirra inni á spítölum og er í rauninni viðurkennd meðferð þó að sú meðferð fái ekki sömu viðurkenningu þegar hún er í höndum græðara og nefni ég þar t.d. nálastungumeðferð og nudd og slíkt sem hefur verið sýnt fram á að hefur mjög góð áhrif á sjúklinga.

Mér sýnist að öðru leyti að það frumvarp sem hér er til umræðu taki mið af ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um hvernig á að taka á þessum málum þannig að það er af hinu góða.

Að lokum langar mig aðeins að draga fram 8. gr. frumvarpsins sem snýr að auglýsingum. Fyrirsögn 8. gr. er reyndar Starfsheiti og kynning en ég ætla sérstaklega að varpa spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra hvað varðar þær takmarkanir sem þar koma fram varðandi auglýsingar á þessari starfsemi. Þeir hópar sem mundu falla undir þessi lög hafa í dag engar slíkar takmarkanir og ég hef ekki séð að það hafi verið til trafala. Sannarlega þurfa þessir aðilar að gæta að ákveðnum siðareglum og að þeir séu ekki að lofa meiru en þeir geta staðið við, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir auglýsi þjónustu sína hér eftir sem hingað til. Reyndar er það skoðun mín að við höfum gengið of langt varðandi heilbrigðisstéttir að þeir megi ekki auglýsa þjónustu sína því hvenær eru auglýsingar upplýsingar og er ekki sjúklingum nauðsynlegt að hafa upplýsingar þegar þeir taka ákvörðun um til hvers þeir eiga að leita.

Í því sambandi langar mig að benda á þjónustu tannlækna. Verðlagning á þjónustu tannlækna er frjáls í dag en fólki er það yfirleitt ekki ljóst. Fólk heldur að það gangi að föstum taxta þegar það fer til tannlæknis, en það er öðru nær. Og meðan fólk hefur ekki upplýsingar um hvað kostar t.d. að senda barnið sitt í tannréttingar þar sem er gríðarlegur verðmunur á milli tannlækna, hvernig í ósköpunum á fólk að geta metið hvar bestu þjónustuna er að fá, hvar eru mestu gæðin fyrir besta verðið, hvert er hagkvæmast að leita? Þessar upplýsingar liggja ekki á lausu nema fólk hreinlega hringi á milli staða þannig að því er í raun og veru gert mjög erfitt fyrir.

Ég legg áherslu á að 8. gr. verði endurskoðuð í nefndinni og horft verði til þess að þessar stéttir auglýsa í dag og það hefur ekki skapað vanda, og um leið vil ég lýsa yfir þeirri skoðun minni að ég tel að við göngum of langt varðandi þetta atriði hjá heilbrigðisstéttum í dag.

Almennt séð tel ég að frumvarpið sé til mikilla bóta fyrir stöðu græðara og stöðu neytenda og það sé mikið framfaramál að það fari í gegn. Það hefði e.t.v. mátt gerast fyrr en það er eins og með svo mörg mál að þau koma seint fram hér á landi, við förum stundum heldur varlegar en aðrar þjóðir en kannski má segja að þegar við tökum okkur til þá gerum við það vel.