131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:42]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er mjög ánægð með að hv. þm. Ásta Möller skuli spyrja út í þetta. Ég tel mjög mikilvægt að átta sig á því hvað þetta þýðir nákvæmlega. Eins og ég skil frumvarpið þá er hægt að veita þjónustu á stofnun ef það er í anda stofnunarinnar en síðan kemur mjög skýrt fram í umsögn fjármálaráðuneytisins að það eigi ekki að greiða eða taka þátt í kostnaði einstaklinga sem leita eftir heilsutengdri þjónustu græðara og frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.

Ef heilbrigðisstofnun kallar inn græðara og hann veitir þjónustu inni á stofnuninni, nýja þjónustu, þá er ekki greitt fyrir hana. Þá hlýtur sjúklingurinn sjálfur að greiða það.

Enda spyr maður sig: Ef það ætti að fara að greiða meðferðina á stofnuninni, af skattfé borgaranna, af stofnuninni sjálfri sem er á fjárlögum. Af hverju er það þá ekki greitt úti í bæ? Hver er munurinn þá?

Mér finnst þetta mjög áhugaverð spurning og það getur vel verið að hæstv. heilbrigðisráðherra geti varpað skýrara ljósi á þetta. En ég skil það þannig að frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda og ekki verði sett nýtt fé í þjónustu græðara. Það hlýtur að útiloka að stofnanir geti greitt fyrir þjónustu græðara inni á stofnunum.