131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:55]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég hafði orð á í ræðu minni áðan eru mörkin um margt óljós og þessi síðustu orðaskipti eru einmitt til marks um það. Í skilgreiningunni í frumvarpinu segir að við séum annars vegar að tala um almenna heilbrigðiskerfið sem eru vísindalega gagnreyndar aðferðir og hins vegar tölum við um heilsutengda þjónustu græðara. Þá segir að hún tíðkist einkum „utan hins almenna heilbrigðiskerfis og byggist fremur á hefð og reynslu ...“

Þetta er einmitt vandi okkar í dag. Til að mynda er uppi á Reykjalundi verið að nota nálastungur sem verkjastillandi meðferð. Það kostar ekki að vera á Reykjalundi. Ég sé fyrir mér að við fáum nálastungusérfræðing inn á Landspítala – háskólasjúkrahús og þá hlýtur sú þjónusta að greiðast af sjúkrahúsinu, alveg á sama hátt og mönnum er gefinn kostur á annarri verkjastillandi meðferð.

Þessi umræða sýnir fyrst og fremst hvað mörkin eru um margt óljós. Við erum að tala um lækna eins og uppi á Reykjalundi með hefðbundna menntun sem hafa svo bætt þessu við sig sem að þeirra mati gefur oftar en ekki betri raun en hefðbundin lyfjameðferð.