131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar um það hvenær væri greitt fyrir þjónustu þessara einstaklinga langar mig að spyrja hæstv. ráðherra af því að það er nú tækifæri til þess — ég hef áður spurt hann út í greiðslur fyrir störf þeirra sem veita húðflúr, sérstaklega konum sem láta byggja upp brjóst eftir brjóstnám vegna brjóstakrabbameins. Yrði það greitt ef spítali fengi þann sem sérhæfir sig í húðflúri inn á spítalann til að byggja upp geirvörtu á konu sem brjóstið hefur verið tekið af alveg eins og borgað er fyrir það þegar læknir flytur húð og græðir annars staðar sem er mun erfiðari og ekki eins árangursrík aðferð? Ég vildi gjarnan fá svar frá hæstv. ráðherra um þetta. Málið snýst um hvað gerist ef slík meðferð kæmi inn á spítalann því þarna erum við farin að viðurkenna öðruvísi þjónustu en þessa hefðbundnu.