131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

208. mál
[17:11]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Markmið lagasetningarinnar er að gjörbreyta útreikningum á kirkjugarðsgjaldinu og koma með nýtt reiknilíkan. Það er erfitt að leggja dóm á það svo sem. Ég tel aftur á móti rétt að ræða hér hvort ekki sé rétt að endurskoða það fyrirkomulag sem við höfum á þessu, þ.e. lögum um kirkjugarða.

Þjóðkirkjan heldur því fram að nánast sé búið að aðskilja ríki og kirkju og hefur reyndar gert fjárkröfur á hendur ríkinu, m.a. varðandi þjóðgarðinn á Þingvöllum og það er spurning hvort við eigum að vera að hafa þessa starfsemi í höndum eins trúfélags. Ég tel vel koma til greina einmitt að ræða það í tengslum við þetta frumvarp hvort ekki eigi að koma þessum málaflokki í heild sinni yfir til sveitarfélaganna. Mér finnst nærtækt að gera það sérstaklega ef litið er á lögin um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu því þá hafa sveitarfélögin ýmsar skyldur sem er rétt að yfirfara og spurning hvort ekki sé einfaldlega rétt að sveitarfélögin annist þennan málaflokk alfarið.

Í 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag hafi þær skyldur að láta ókeypis í té hæfilegt kirkjugarðsstæði og efni í girðingu. Ég tel miklu eðlilegra að sveitarfélagið hefði þennan málaflokk í heild sinni.

Einnig má skoða hvernig stjórn kirkjugarða er fyrirkomið. Í 8. gr. laganna kemur fram að hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar sé sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar.

Síðan segir í 9. gr., með leyfi forseta:

„Nú hafa tvær eða fleiri sóknir sameiginlegan kirkjugarð ... og skulu þá sóknarnefndir hver um sig kjósa einn mann úr hópi aðalmanna og varamanna í nefndinni ...“

Nú eru margar sóknir í Reykjavík þannig að stjórnin hér hjá kirkjugörðunum er ansi fjölmenn. Ég hef svona vissan efa um svo fjölmenna stjórn. Ég held að um 18 manns sitji í þeirri stjórn. Ætli það sé heppilegt til þess að stýra þeirri samfélagsstofnun sem kirkjugarðarnir eru og á þetta verkefni ekki fremur heima hjá sveitarfélögunum? Það væri forvitnilegt að fá að heyra afstöðu hæstv. ráðherra dóms- og kirkjumála hvað varðar það efni.