131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:50]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda Pétri Bjarnasyni fyrir að færa þetta mál á dagskrá Alþingis hér í dag. Aftur er skollið á verkfall kennara þegar aðeins er vika liðin síðan gert var hlé á verkfalli þeirra sem þá hafði varað í sex vikur. Enn virðist engin lausn í sjónmáli.

Kennarar felldu miðlunartillögu ríkissáttasemjara með mjög afgerandi hætti í gær þegar 93% kennara greiddu atkvæði gegn tillögunni og þar með hófst verkfall að nýju. Eins og allir vita varðar það 4.300 kennara og 45 þús. grunnskólabörn. Um þriðjungur allra heimila á landinu verður með einhverjum hætti fyrir barðinu á verkfallinu og þolinmæði allra er á þrotum.

Verst bitnar verkfallið þó á börnum þessa lands sem eru í reiðileysi án menntunar vikum og mánuðum saman. Við getum alls ekki boðið þeim upp á þetta lengur. Við erum að eyðileggja menntun þeirra til framtíðar.

En það er ekki hægt að áfellast bara kennarana fyrir það. Augljóslega nást engir samningar nema kennarar fái verulegar kjarabætur. Það er m.a. vegna þess að kennarar miða auðvitað við nýlega kjarasamninga milli framhaldsskólakennara og ríkisins þar sem kjör framhaldsskólakennara voru leiðrétt verulega. Kjör grunnskólakennara hafa hins vegar ekki verið leiðrétt lengi.

Samfélagið krefst þess núna að menntamálaráðherra, æðsti yfirmaður menntamála í landinu, leiti bráðabirgðalausnar til að mæta þessum vanda. Góður grunnskóli hefur gífurlega þýðingu fyrir samfélag okkar, fátt er mikilvægara en að byggja upp gott skólakerfi og það byggist að sjálfsögðu á góðri kennslu. Við fáum ekki góða kennara og góða kennslu nema kennarar fái viðunandi laun.