131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Verkfall grunnskólakennara.

[13:55]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Grunnskólastarfið í landinu er í uppnámi og nú blasir við sú nöturlega staðreynd að framhald verður á kjaradeilunni, kjaradeilu þar sem ríkir þrátefli. Hæstv. menntamálaráðherra og forsætisráðherra hafa í sex vikna verkfalli grunnskólakennara, þar sem börnin fá ekki lögbundna menntun sína, látið sem þeim komi deilan ekki við.

Nú verður sinnuleysi ráðherranna að ljúka. Þeim kemur málið við, þeirra er ábyrgðin. Skólamissirið bankar í að vera ónýtt, vel yfir ein milljón skóladaga hefur glatast og börnin í landinu eru svikin um lögbundinn rétt sinn til grunnskólamenntunar, fræðslu sem menntamálayfirvöld bera ábyrgð á að veitt sé. Þeirri ábyrgð verður ekki komið yfir á aðra, enda er það ríkisvaldið sem bæði skammtar verkefnin og tekjurnar til að sinna þeim. Ríkið verður að gera upp við sveitarfélögin og veita þeim sanngjarna tekjustofna þannig að þau geti sinnt lögbundnum verkefnum og greitt kennurum og öðrum starfsmönnum sínum sanngjörn laun. Ábyrgðin á deilu kennara og sveitarfélaga er á ábyrgð ríkisvaldsins. Ekki einungis skammtar ríkið sveitarfélögunum tekjustofnana, snuðar þau um uppgjör á öðrum sviðum, heldur gekk ríkið á undan með skilyrðislausu fordæmi þegar samið var við framhaldsskólakennara fyrir nokkrum árum. Þessar tvær stéttir eiga og verða að fylgjast að í launalegu tilliti.

Með samningum ríkisins við kennara í framhaldsskólum skildi á milli stéttanna. Það bil verður nú að brúa. Það verður ekki gert án aðkomu ríkisvaldsins.

Þá verður hæstv. menntamálaráðherra að svara því skýrt hvort og þá hvaða tillögur hún muni leggja til samræmdra aðgerða til að mæta afleiðingum verkfallsins á skólagöngu barnanna.