131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Lánasjóður sveitarfélaga.

269. mál
[14:21]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir dró hér fram sérstaklega að verði frumvarpið að lögum muni það laga stöðu jöfnunarsjóðs gagnvart sveitarfélögunum. Það kemur fram og er alveg rétt að áætla má að aukið ráðstöfunarfé sjóðsins á árinu 2005, verði frumvarpið að lögum, sé um 40 millj. kr. En mig langar þá að spyrja hv. þingmann á móti: Tekjuskattslækkunarhugmyndir ríkisstjórnarinnar um 1% munu væntanlega lækka tekjuskatt um 5 milljarða kr. og mun það þá væntanlega lækka tekjur jöfnunarsjóðs um rúmar 100 millj. eða um talsvert hærri tölu en kemur þarna inn í staðinn, 40 millj. kr. Ef hv. þingmaður horfir til þess að það sé nauðsynlegt að styrkja stöðu jöfnunarsjóðs og að sveitarfélög komi betur út úr jöfnunarsjóði eftir en áður þá langar mig að spyrja hv. þingmann með hvaða ráðum á að bæta í jöfnunarsjóðinn fyrir þeim rúmu 100 millj. sem 1% tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar mun svipta sjóðinn?