131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[14:37]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Hér er athyglisvert og þarft mál á ferðinni sem gefur tilefni til væntinga um að breyttar umferðarvenjur og hættir verði teknir upp af ökumönnum. Vonandi mun svo verða. Það var athyglisvert að hlusta á þá punkta sem hæstv. samgönguráðherra taldi upp varðandi þetta lagafrumvarp og þá tíu liði sem hæstv. ráðherra taldi upp yfir markmið með lagasetningunni.

Athyglisvert er að skoða skýrslu rannsóknarnefndarinnar um slys í umferðinni 2003 með hliðsjón af þeim liðum sem hæstv. ráðherra taldi upp. Það er t.d. athyglisvert að sjá, svo ég vitni aðeins í ummæli úr skýrslunni, með leyfi forseta:

„Í gögnum rannsóknarnefndarinnar kemur fram að flestir ökumenn sem hlutdeild eiga að banaslysum eru á aldrinum 17–24 ára. Í mörgum slysum hefur nefndin skráð reynsluleysi ungra ökumanna og röng viðbrögð þegar ökutæki fer að renna til, ýmist sem meðverkandi þátt eða meginorsök slyss.“

Í annan stað segir, með leyfi forseta:

„Um 10% þeirra sem farast í umferðarslysum á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar, og ákveðið hlutfall þeirra eru erlendir ferðamenn.“

Síðar segir að til þessa verði að taka tillit varðandi hönnun vega, hraðamerkingar og merkingar á hættulegum kröppum beygjum og fleiri atriðum sem inn á er komið og rannsóknarnefnd umferðarslysa telur til meginþátta sem virkilega þurfi að skoða.

Fleira mætti nefna sem rannsóknarnefndin hefur bent á, m.a. að framanákeyrslur eru algengastar í nágrenni Reykjavíkur. Um 70% framanákeyrslna verða í 50 km radíus frá Reykjavík og á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut þar sem nauðsynlegt er að aðgreina umferð úr gagnstæðum áttum með leiðara og koma með því í veg fyrir framanákeyrslur. Stigið er skref í þá átt með vegaframkvæmdum á Reykjanesbraut og er það vel.

Eitt þyrfti þó að skoða sem nefnt er í skýrslunni, þ.e. þann þyngdarmun sem orðinn er á bifreiðum:

„Samkvæmt tölfræði rannsóknarnefndarinnar er þyngdarmunur ökutækja í árekstrum áberandi þáttur. Árekstrar jeppa og fólksbifreiða, þyngdarmunur tvö- til þrefaldur, eru algengir í banaslysum en einnig árekstrar jeppa og fólksbifreiða við stærri ökutæki, svo sem flutningabifreiðar, þyngdarmunur sexfaldur eða meiri. Í ljósi aukinna landflutninga ýtir þessi staðreynd enn frekar á að umferð úr gagnstæðum áttum á umferðarmestu vegunum verði aðgreind.“

Eins og hæstv. ráðherra kom líka inn á í sambandi við hraðamerkingar og umferðarmerkingar eru þær að sjálfsögðu nauðsynlegar til glöggvunar fyrir erlenda ferðamenn sem eru í auknum mæli farnir að ferðast á eigin vegum og nota bílaleigubíla til að ferðast um landið. Þar er mikil þörf á að taka upp nýjar merkingar og jafnvel með erlendum, t.d. enskum, texta til aðgreiningar.

Ég vil vitna í fleira athyglisvert í þessari skýrslu og vil, með leyfi forseta, enn vitna til hennar:

„Hraðamerkingar á vegum miðast í dag við hámarkshraða við bestu aðstæður hverju sinni. Þó eru ýmsir staðir í þjóðvegakerfinu, þar sem ógerlegt eða hættulegt er að aka svo hratt. Þeir eru oftast ekki hraðamerktir sérstaklega.“

Allar þær vegmerkingar sem hér hafa verið settar upp miðast við bestu aðstæður. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. samgönguráðherra og af hálfu Vegagerðarinnar hlýtur því að þurfa að setja upp varúðarskilti, plúsa þar sem miðað er við bestu aðstæður en mínusa þar sem menn ættu að athuga sinn gang og eins hvað varðar krappar beygjur o.s.frv.

Í skýrslunni er einnig komið inn á slitna hjólbarða. Ég minnist þess er ég var á ferðalagi í Suður-Englandi og dekk skemmdist undir bifreiðinni sem ég ók. Ég fór inn á næsta dekkjaverkstæði og bað þá um að gera við dekkið, sem þýddi að það þurfti að setja kappa í það. Það kom ekki til greina, ég yrði að kaupa mér nýtt dekk á viðkomandi dekkjaverkstæði. Forsvarsmaður þess sagði að hann kæmi ekki nálægt þeirri dekkjaviðgerð, þeir bæru ábyrgð á því að þeir sem færu frá þessu dekkjaverkstæði væru á öruggum hjólbörðum og ekkert annað.

Ég velti því fyrir mér hvort skoða ætti þetta mál. Því miður kemur fram í skýrslunni að of mikið sé um að ökutæki séu á mjög lélegum hjólbörðum sem ekki standast skoðun eða kröfur um öryggi. Þess vegna væri eðlilegt að taka upp gott samstarf, fyrst um sinn áður en gripið yrði til annarra aðgerða, við hjólbarðaverkstæði um að þau taki upp ríkt eftirlit og gefi ábendingar til ökumanna sem koma á dekkjaverkstæði á lélegum dekkjum, sem of mikið virðist um samkvæmt þessari ágætu skýrslu.

Ég vil koma aftur að ungu ökumönnunum. Það er mikið talað um að hér sé hraðakstur og það er líka talað um hvað það hafi mikil áhrif að lögreglan sé sýnileg. Ég hef oft velt því fyrir mér og ætla ekki annað en að ökukennarar séu meðvitaðir um þá þróun vega og tæknibúnaðar bifreiða að þeir fylgi eftir þeim breytingum sem orðið hafa hvað hraðakstur áhrærir. Við vitum að ökukennarar hafa samið við þá sem stjórna Hvalfjarðargöngum við fyrirtækið Spöl um að æfa ökumenn sem eru að taka ökuréttindi í að aka Hvalfjarðargöngin og er það vel. Að sama skapi hlýt ég að spyrja hvort ökukennarar sinni því að fara með þá sem eru að læra á bifreiðar, ungt fólk, út úr bænum og taki upp þann hraða sem almennt er á vegum út frá höfuðborginni, þ.e. um 90–100 km hraða. Eða getur verið að kennsla ungs manns sem er að taka bifreiðapróf miðist fyrst og fremst við að aka innan höfuðborgarsvæðisins á 40–50 km hraða? Ég á ekki von á því að það sé hin almenna regla. Hins vegar hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort það eigi ekki að vera hluti af verkefninu að kennarar í umferðinni taki þetta upp. Að sjálfsögðu mun einnig koma til góða, eins og kynnt var í ræðu hæstv. samgönguráðherra, að sett verði upp sérstakt æfingasvæði fyrir námsmenn sem eru að læra til ökuprófs.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín lengri, en vitna enn til þessarar merku skýrslu sem hefur verið gefin út og bendi á að víða eru hættur og margt sem þarf að skoða. Ég nefni mislæg gatnamót og umferðarslys við gatnamót þar sem stöðvunarskylda er ekki virt eða aðgæsluleysi ökumanna þegar komið er að gatnamótum, jafnvel hraðakstur og fleira sem lýtur að gáleysi ökumanns.

Virðulegi forseti. Ég fagna frumvarpinu og mun vinna því heils hugar framgang þegar það kemur til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd.