131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[14:47]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna efni frumvarpsins að mestu leyti, en það vakna ósjálfrátt nokkrar spurningar, vegna þess að verið er að leggja til að skipuð verði þriggja manna nefnd sem hefur forstöðumann, fjórir einstaklingar sem er verið að veita afar víðtækt vald og heimildir, m.a. til að taka skýrslur af fólki á vettvangi án þess að þess sé getið að þeim beri skylda til þess að bera skýrslurnar undir þá einstaklinga sem hlut eiga að máli. Þeim er heimilt að hljóðrita skýrslurnar. Allir fjórir einstaklingarnir geta farið á vettvang og rannsakað slys að eigin frumkvæði, að mér sýnist, og eiga að hafa óhindraðan aðgang að vettvangi umferðarslyss sem gæti að mínu mati hugsanlega stangast á við störf lögreglu á staðnum. Einnig má ganga í læknaskýrslur og upplýsingar frá vátryggingafélögum, læknum og öllu heilbrigðisstarfsfólki. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni, þessum fjórum einstaklingum, allar þær upplýsingar og aðstoð sem hún fer fram á.

Rannsóknarnefndin á að vera sjálfstæð og óháð stjórnvöldum eftir því sem fram kemur í greinargerðinni. Ég spyr hæstv. ráðherra, þar sem þessi þriggja manna nefnd með formanni hefur í raun og veru mjög víðtækar heimildir: Kom ekki til greina að nefndin hefði aðsetur hjá Umferðarstofu og heyrði undir hana? Ef svo er ekki, hvers vegna? Mér fyndist eðlilegt að þarna væri um samstarf eða samrekstur að ræða.

Í 15. gr. er kveðið á um að rannsóknarnefnd umferðarslysa geti endurupptekið mál þótt rannsókn nefndarinnar sé lokið, sbr. 12. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati. Þessir fjórir einstaklingar meta það þá. Síðar segir, með leyfi forseta:

„Þegar sérstaklega stendur á getur samgönguráðherra falið rannsóknarnefnd umferðarslysa að rannsaka nánar tiltekið umferðarslys eða sérstök atriði sem tengjast umferðarslysi ef ný gögn eða upplýsingar koma fram eftir að rannsókn rannsóknarnefndarinnar er lokið.“

Mér hefði fundist eðlilegra að þarna væri aðeins um annan aðilann, ráðherra, að ræða, þannig að sækja þyrfti sérstaklega um að fá að taka upp mál að nýju. Það stingur svolítið í augu hversu víðtækar heimildir nefndin fær, ekki síst að hún getur tekið upp öll mál að eigin frumkvæði. Það er ekki kveðið á um það hvar starfsmenn nefndarinnar skuli hafa aðsetur, ég sé það ekki í fljótu bragði. Ég viðurkenni, virðulegi forseti, að ég var rétt að renna yfir frumvarpið meðan verið var að mæla fyrir því. Umsögn fjárlagaskrifstofu vekur líka athygli miðað við hið víðtæka hlutverk sem nefndin hefur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi þrjá menn í rannsóknarnefnd umferðarslysa. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipaður verði forstöðumaður nefndarinnar sem annist daglegan rekstur hennar og að hann verði einnig rannsóknarstjóri umferðarslysa.

Í kostnaðarmati frá samgönguráðuneytinu er gert ráð fyrir að kostnaður verði 10 millj. kr. á ári verði frumvarpið að lögum. Að mati fjármálaráðuneytisins á sá kostnaður að rúmast innan fjárheimilda samgönguráðuneytisins.“

Þetta finnst mér vera afar óraunhæf tala þar sem um er að ræða launaðan starfsmann sem getur samkvæmt efni frumvarpsins kallað til sérfræðinga á öllum sviðum, ekki endilega ríkisstofnana sem eru starfandi og ber skylda til þess að veita þessar upplýsingar, heldur líka sérhæft fagfólk. Ég reikna líka með því að þetta kalli á einhvern annan rekstur, skrifstofurekstur, þar sem nefndin hefur fast aðsetur og spyr hæstv. ráðherra: Miðað við hvaða umfang er þessi tala fundin út? Ef reiknuð eru út laun og launatengd gjöld eins starfsmanns og samrekstur skrifstofu er ekki mikið eftir fyrir sérfræðiaðstoðina sem þyrfti hugsanlega að kaupa.

Þetta stingur svolítið í augu miðað við hið víðtæka hlutverk sem nefndin og rannsóknarstjórinn hefur, að geta farið að eigin frumkvæði til rannsóknar á slysstað meti nefndin það svo. Mér hefði fundist eðlilegt að í þeim tilvikum sem lögreglan mæti það svo að kalla þyrfti til sérstaka rannsóknarnefnd til þess að meta orsök og afleiðingar slyss væri nefndin kölluð til, en ekki að eigin frumkvæði.

Ég spyr hæstv. ráðherra, ég býst nú við að þetta verði allt saman skoðað vel í nefndinni, hvort það hafi ekkert komið til greina í undirbúningi frumvarpsins að nefndin væri skipuð, hún hefði samstarf eða samrekstur með Umferðarstofu og í þeim tilvikum sem lögregla á vettvangi mæti það svo að það þyrfti sérstaka rannsókn á orsök og afleiðingu slyss væri hún kölluð til. Síðan er það kostnaðarmatið sem fram kemur í fylgiskjali.