131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa.

236. mál
[14:54]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Um leið og hæstv. samgönguráðherra hefur fylgt úr hlaði frumvarpinu um rannsóknarnefnd umferðarslysa vakna auðvitað upp mjög margar spurningar eins og fram komu hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, 1. þm. Suðurk., og ég get sleppt að tala um.

Eins og fram kemur er verið að setja á stofn rannsóknarnefnd umferðarslysa til þess að setja punktinn yfir i-ið, ef svo má að orði komast, í rannsóknarnefndum þar sem flest slys verða, þ.e. þetta er sett upp í takt við rannsóknarnefnd flugslysa og rannsóknarnefnd sjóslysa eins og fjallað er um í greinargerð með frumvarpinu. Í 1. gr., um almenn ákvæði, er fjallað um að samgönguráðherra skuli í reglugerð tilgreina nánar hvað falli undir umferðarslys í lögum þessum. Þetta er auðvitað mjög veigamikið atriði, vegna þess að sem betur fer eru flugslys ekkert voðalega mörg, sjóslys eitthvað fleiri en þó ekkert í líkingu við umferðarslys. Það stendur því náttúrlega og fellur með því hvernig þetta verður tilgreint, hvaða slys á að rannsaka og hver ekki. Þess vegna vil ég segja það strax í upphafi máls míns, virðulegi forseti, að ég tel mjög mikilvægt að samgönguráðherra sýni samgöngunefnd drög að reglugerð sem hann hyggst setja um hvernig slys verða skilgreind, vegna þess að öðruvísi er ekki hægt að fjalla um frumvarpið.

Það er hárrétt sem hv. 1. þm. Suðurk., Margrét Frímannsdóttir, fjallaði um áðan, þ.e. um umsögn fjármálaráðuneytisins, að kostnaðarmat samgönguráðuneytis sé um 10 millj. kr. og að mati fjármálaráðuneytisins á sá kostnaður að rúmast innan fjárheimilda samgönguráðuneytisins. Þetta er að mínu mati algjörlega óraunhæft og með ólíkindum að menn ætli að setja þetta upp á þennan hátt. Það mun kosta miklu meira en 10 millj. kr. að reka rannsóknarnefnd umferðarslysa, sem vill standa undir nafni og rannsaka þau fjölmörgu umferðarslys sem því miður verða í landinu, og mörg hver mjög alvarleg.

Ég kann ekki nákvæmlega að segja hvernig eitt starf er metið í samgönguráðuneytinu með launatengdum gjöldum, skrifstofuaðstöðu og öllu því. Við skulum líka hafa í huga að inn í þetta kemur ferðakostnaður. Rannsóknarnefndin gæti þurft, hvort sem það er rannsóknarstjóri eða nefndin öll, eins og rannsóknarnefnd flugslysa og sjóslysa sem þarf oft að fara frá Reykjavík og út á land, þar sem því miður mörg alvarleg slys verða í vegakerfi landsins.

Ég þykist vita að í skilgreiningu hæstv. samgönguráðherra hvaða umferðarslys falli undir þetta og hver ekki geti þau því miður mörg gerst úti á landi í því vegakerfi sem þar er búið við. Nægir t.d. bara að nefna akstur útlendinga á malarvegum sem þekkja ekki og vara sig ekki á þeim aðstæðum sem oft skapast þegar menn fara út af malbiki og inn á malarveg eða þrönga vegi eða einbreiðar brýr. Nefndin þarf því örugglega oft á tíðum að taka sér ferð á hendur til þess að skoða umferðarslys úti á landi.

Hvernig í ósköpunum geta menn þá reiknað með því að þetta kosti 10 millj. kr.?

Til að fyrirbyggja allan misskilning, virðulegi forseti, er ég ekki að mæla gegn þeirri hugmynd sem hér er sett fram. Hún er allra góðra gjalda verð. Það er mikil þörf á því að rannsaka og setja lög um rannsókn umferðarslysa eins og hér er lagt til, þó ég ætli ekkert endilega að segja að þessi lög taki algjörlega á þeim og séu „súperfín“, ef svo má að orði komast. En það er ljóður að halda að hægt sé að gera þetta fyrir þessa upphæð. Það er útilokað. Ég skil ekki af hverju verið er að setja þetta þannig fram að þetta verði gert svona.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan — ég held að það sé mjög mikilvægt að drög að reglugerðinni komi til nefndarinnar. Ég mun alla vega, sem nefndarmaður í hv. samgöngunefnd, óska eftir því að það komi skilgreining á því hvað á að fella undir umferðarslys til þess að kostnaðarmeta verkefnið, því við höfum ekkert að gera með að setja þetta af stað ef það getur ekki rekið sig vegna peningaskorts. Þá þarf að sækja meiri pening í ríkissjóð til þess að gera þetta, vegna þess að við ætlumst til þess að nefndin muni standa undir nafni og rannsaka þau fjölmörgu slys sem verða, til þess að við lærum af þeim, getum jafnvel komist að göllum í veghönnun eða eitthvað svoleiðis. Nægir að nefna hina svörtu bletti í vegakerfinu sem Vegagerðin hefur skilgreint og menn hafa hægt og sígandi verið að vinna á.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki og ég ætla ekki að taka meiri tíma í að ræða um frumvarpið við 1. umr. Ég á sæti í hv. samgöngunefnd og þangað mun málið koma og við munum fara vel yfir þetta. Ég tek undir að það er ágætt að setja heildstæða löggjöf um málið, að þetta sé tekið úr þeim farvegi sem það er í núna þó ég geri mér líka grein fyrir því að rannsóknarnefnd umferðarslysa, eins og hún hefur verið sett miðað við 115. gr. a í umferðarlögum, hefur vafalaust verið að skila ágætu starfi.

Þrátt fyrir að ég andmæli kostnaðarmati samgönguráðuneytisins vil ég ítreka að ég held að hér sé gott frumvarp og góð hugmynd á ferðinni, en það getur vel verið að það þurfi að fara töluvert vel yfir það í hv. samgöngunefnd. Við höfum nógan tíma til að gera það sem eftir lifir af þessu þingi.