131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Sérkennslu- og meðferðardagdeild fyrir börn með geðrænan vanda.

24. mál
[15:38]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda. Ég vil í upphafi máls míns þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, fyrir það frumkvæði sem hún hefur átt í þessu máli og þá miklu vinnu sem mér er kunnugt um að hún hafi lagt í það.

Þessi tillaga til þingsályktunar er ákaflega einföld. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra að ganga frá samningum um stofnun sérkennslu- og meðferðardagdeildar fyrir börn með geðrænan og félagslegan vanda og leggja fyrir Alþingi nauðsynlegar lagabreytingar eigi síðar en 1. október 2005.“

Hér er ekki verið að setja fram þingsályktunartillögu um að eitthvað sé kannað eða eitthvað sé skoðað. Það er álit okkar flutningsmanna, en ég er einn af þeim, að þetta mál sé fullkannað og að fyrir liggi með óyggjandi hætti að nauðsynlegt sé að ganga í þessi mál eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni.

Við teljum að það sé algjör nauðsyn að taka nú þegar til skoðunar stöðu þeirra barna á grunnskólaaldri sem búa við alvarlegan geðrænan eða félagslegan vanda. Það má segja að í nokkuð mörg ár hafi umræðan gengið út á það að öll börn eigi að vera í hinum hefðbundna grunnskóla í sínu sveitarfélagi og að sjálfsögðu er ekkert annað en gott að segja um það ef það er hægt. Það verður að vera hægt að sinna þessum börnum í hinum almenna grunnskóla þannig að þau njóti þeirrar kennslu sem grunnskólinn á að veita þeim en jafnframt sé með einhverjum hætti meðferðarúrræði sem taki á þeim vanda sem börnin eiga í. Álit okkar er að í hinum hefðbundna grunnskóla hafi því miður oft orðið misbrestur á því og að ákveðinn fjöldi barna búi við skarðan hlut í grunnskólunum. Þrátt fyrir góðan vilja, bæði sveitarfélaga og skólastjórnenda, hefur ekki tekist að taka á vanda þeirra barna sem verst standa.

Þessi börn fá í raun og veru ekki lögbundna kennslu vegna þess að hegðan þeirra kemur oft og tíðum í veg fyrir það og ekki verður séð að hægt verði að tryggja að þau fái fullnægjandi meðferð nema með einhverjum sértækum aðgerðum utan hins hefðbundna grunnskóla.

Það er jafnframt mat okkar sem flytjum þessa þingsályktunartillögu að þetta mál þoli enga bið. Eins og fram kom í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, eigum við hálferfitt með að skilja af hverju þetta mál dagaði uppi á síðasta þingi og fékk ekki framgang. Núna leggjum við sem hér flytjum þessa þingsályktunartillögu, þingmenn nánast allra flokka, traust okkar á það að þingmenn hinna flokkanna hjálpi okkur að ýta við þessu máli í nefnd þegar það verður komið þangað.

Eins og fram kom í máli 1. flutningsmanns má segja að þeir nemendur sem um er að ræða skiptist gróflega í tvo flokka, þ.e. þá sem sýna andfélagslega hegðan eins og það er kallað, valda óróa, bæði í bekkjardeildum og í skólanum. Hún birtist í árásum á skólafélaga, kennara, starfsfólk og eignaskemmdum oft og tíðum. Þeim börnum sem sýna slíka hegðan líður engan veginn vel. Oft er tekið á vanda þeirra með einhverjum hætti vegna þess að hann er mjög sýnilegur. Síðan eru önnur börn sem eru vanvirk, eru með athyglisbrest án þess að vera ofvirk og oft og einatt verða þau algjörlega út undan í núverandi skólakerfi og sigla í gegnum grunnskólann fram á fullorðinsár án þess að um greiningu sé að ræða eða að hinn almenni grunnskóli geri sér grein fyrir þeim vanda sem þessi börn eiga í.

Að sjálfsögðu á að reyna allt heima, í heimaskólanum, eins og mögulegt er til að sinna þessum börnum. Það er þó nauðsynlegt að einhver úrræði séu tæk þegar allt bregst á heimaslóðum.

Það kom fram í framsöguræðunni að hjá skólaskrifstofu Suðurlands hafa verið lagðar fram hugmyndir að svona dagdeild fyrir geðfötluð börn og búið er að leggja mikla vinnu í hana. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að sveitarfélögin á þessu svæði séu tilbúin til að axla þá ábyrgð sem fylgir því að keyra svona tilraun. Hæstv. heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra þurfa þó að koma að málinu og keyra það ríkisins megin. Við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að það er á könnu sveitarfélaganna að greiða fyrir grunnskólamenntun barna með lögheimilisfesti í viðkomandi sveitarfélagi en það er ekkert síður á könnu ríkisins að greiða fyrir meðferð vegna hegðunarröskunar barnanna.

Því þurfa bæði sveitarfélögin og ríkið að koma að þessu máli og vinna það í sameiningu. Ef vel tekst til á Suðurlandi sjáum við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu fyrir okkur að þetta geti orðið módel að sams konar uppsetningu annars staðar á landinu þar sem fyrir eru þær stofnanir sem hér um ræðir, skólayfirvöld, skólamálaskrifstofa, heilbrigðisstofnun og öflugt félagsmálabatterí þannig að allir aðilar geti tekið höndum saman og tekið þau börn í faðminn sem þurfa á þessari sérstöku meðferð að halda. Þannig er strax á unga aldri barnanna hægt að reyna að koma í veg fyrir vandræði síðar meir.

Umsagnir um þingsályktunartillöguna þegar hún var til meðferðar hjá félagsmálanefnd voru, eins og fram kom, allar mjög jákvæðar. Ekki ætti að þurfa að eyða mjög löngum tíma í umsagnir á þessu stigi málsins, reyna heldur að flýta meðferð þess þannig að það komist til afgreiðslu.

Við höfum verið að horfa á það undanfarnar vikur að börn í grunnskólum landsins hafa nánast verið afgangsstærð, vil ég leyfa mér að segja. Ekki hefur tekist að ná samkomulagi sem tryggi þessum börnum öllum skólavist. Börn mega aldrei verða afgangsstærð hjá okkur, hinum fullorðnu, hvað þá börn sem eiga í þeim vanda sem hér um ræðir. Það er algjörlega nauðsynlegt að börn með geðrænan eða félagslegan vanda njóti kennslu á grunnskólastigi eins og lög gera ráð fyrir en það verður að tryggja þeim leiðir eins og við leggjum til hér í þessari þingsályktunartillögu, að þau fái meðferð við sjúkdómi sínum á sama tíma. Við teljum að þetta verði ekki gert í hinum almennu bekkjardeildum og því leggjum við hér fram þessa þingsályktunartillögu.