131. löggjafarþing — 22. fundur,  9. nóv. 2004.

Dýravernd.

39. mál
[16:17]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum, og óska eftir að málinu verði vísað til umhverfisnefndar.

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 130. löggjafarþingi en ekki náðist að mæla fyrir því þar sem ekki vannst tími til þess. Það miðar að því að auka heimild Umhverfisstofnunar til þess að beita sér fyrir endurbótum á dýrahaldi í atvinnuskyni þar sem misbrestur hefur orðið á starfseminni.

Í úrskurði umhverfisráðuneytisins sem kveðinn var upp 20. nóvember 2003 var niðurstaðan að Umhverfisstofnun hefði ekki heimild til að gera kröfu um fjölda starfsmanna þar sem stundað er dýrahald í atvinnuskyni. Það er þó nauðsynlegt og frumforsenda þess að unnt sé að tryggja góða umhirðu og meðferð dýra. Þess vegna er lagt til að bætt verði inn í 12. gr. laganna ákvæði sem mælir fyrir um að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um fjölda starfsmanna þar sem slík atvinnustarfsemi fer fram.

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laganna getur Umhverfisstofnun beitt þeirri stjórnvaldsþvingun að krefjast þess af eiganda eða umsjónarmanni dýra að hann bæti úr þeim þáttum sem ekki samræmast ákvæðum laganna. Ekki er minnst á áminningu í ákvæðinu og er lagt til að stofnunin geti áminnt sem og krafist tiltekinna úrbóta. Er það í samræmi við þvingunarúrræði annarra laga sem stofnunin starfar eftir, svo sem laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Ekki er í gildandi lögum að finna skýra heimild til að svipta eiganda eða umsjónarmann dýra því rekstrarleyfi sem Umhverfisstofnun veitir skv. 12. gr. laganna. Heimildarsvipting skv. 5. mgr. 18. gr. laganna, sem og 20. gr., þjónar ekki sama tilgangi. Nauðsynlegt er að slíka heimild sé að finna í lögum. Það er því nauðsynlegt að bæta úr því og er það gert í því lagafrumvarpi sem er hér til umræðu.

Dýraverndarmál voru talsvert í sviðsljósinu á síðasta ári m.a. vegna hundaræktarbúa. Ekki verður tekin efnisleg afstaða til þeirra deilna sem fóru fram m.a. í fjölmiðlum og úti í samfélaginu, en ég tel einsýnt að það þurfi að bæta og skýra stjórnsýslumörk embætta sem fjalla um þessi mál vegna þess að það hefur ítrekað komið fram að embætti hafa tekist á um hver mörk þeirra hafi verið. Það frumvarp sem hér er til umræðu mun án nokkurs efa skýra og greiða úr málum og vera til bóta, ekki einungis fyrir þá sem eru áhugasamir um dýravernd heldur mun það bæta réttarstöðu þeirra sem halda dýr í atvinnuskyni.

Það varð ákveðinn misbrestur á síðasta ári við framkvæmd laganna og er eitt skýrasta dæmið þegar yfirdýralæknir greip fram fyrir hendurnar á Umhverfisstofnun sem var búin að gera ákveðna kröfu um úrbætur á hundaræktarbúi. Að vísu gerði yfirdýralæknir það með því fororði að hann vildi ekki láta dýrin líða fyrir stjórnsýslu, að hans sögn, og þess vegna greip hann strax inn í. En því miður urðu afskipti yfirdýralæknis af málinu til þess að málið tafðist og skapaði í rauninni ótrúlega flækju. Yfirdýralæknir gerði kröfu um úrbætur sem hann hafði enga lagastoð fyrir. Það kemur fram hjá starfsmanni yfirdýralæknis að hann hafi gert kröfu um ákveðnar úrbætur sem áttu að ná fram innan tveggja mánaða frests. En síðan var þeim kröfum ekki fylgt eftir af yfirdýralækni og er það ótrúlegt.

Í nýlegu bréfi frá embætti yfirdýralæknis fellst hann í rauninni á það að embætti yfirdýralæknis hafi ekkert með þennan málaflokk að gera. En í bréfi frá héraðsdýralækni Gullbringu- og Kjósarumdæmis, Gunnari Erni Guðmundssyni, segir, með leyfi forseta:

„Undirritaður vill taka það fram að embættið hefur ekki eftirlit með hundaræktarbúum.“

Samt sem áður hafði sama embætti gert kröfu og gefið frest og þvælt stjórnsýsluna þannig að það er einsýnt að hér þarf að skýra mál og greiða úr til þess að dýraverndarmál fái eðlilega afgreiðslu í kerfinu. Frumvarpið sem hér er til umræðu mun án nokkurs efa greiða úr málum og bæta heimildir Umhverfisstofnunar til þess að taka á málum sem varða dýravernd ef upp kemur grunur um að úr þurfi að bæta.