131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sameining Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík.

96. mál
[14:43]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það getur verið góður kostur að sameina skóla á háskólastigi til að ná meira afli í skólana okkar og meira afli inn í menntakerfið. Betra tóm gefst til að ræða það þegar þetta mál kemur inn í þingið en lítið á þessari einu mínútu sem ég hef hér.

Ég vildi spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Voru aðrir kostir skoðaðir en þeir sem hér eru til umræðu, svo sem samvinna við Viðskiptaháskólann á Bifröst? Forsendan fyrir þessari sameiningu segir hæstv. ráðherra að sé vilji beggja skóla til að byggja upp verkfræði- og tækninám. Er sá vilji ekki jafnmikið til staðar á Bifröst? Var sá kostur skoðaður einnig, kostirnir svo vegnir og metnir, hvor væri þá betri? Þarna er verið að færa hinu nýja félagi mikil verðmæti sem felast í Tækniháskólanum sem slíkum þannig að það er mjög brýnt að allir kostir séu skoðaðir vel þó svo að þessi kostur reynist vonandi ágætur.

Einnig vildi ég nefna það og skora á hæstv. ráðherra að tryggja það að nemendur fái aðild að hinu nýja háskólaráði skólans en svo er ekki samkvæmt fyrirliggjandi tillögum.