131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnustaðanám.

259. mál
[15:00]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hérna fer fram nauðsynleg og ágæt umræða um mikilvægt menntamál, þ.e.vinnustaðanám og starfsnám úti á vinnustöðunum. Það er mjög nauðsynlegt að það sé mjög öflugt og að því sé greið leið til þess að við náum að efla iðnnámið og starfsnámið eins og vilji stendur til og gera það áfram að enn þá betri kosti fyrir nemendur á framhaldsskólastigi. Þar er mjög nauðsynlegt, eins og hér er rætt um, að fjármögnun sé tryggð. En jafnframt þarf að gæta þess að samræmis sé gætt og ákveðið eftirlit sé með gæðum og framkvæmd vinnustaðanáms því eins og fram hefur komið í máli sumra iðnnema er þar víða pottur brotinn og mjög misjafnlega að nemendunum búið sem stunda nám úti á vinnustöðunum. Þó svo að sjálfsögðu sé það langoftast mjög gott og til fyrirmyndar þá er oft pottur brotinn og réttindi þeirra á reiki fyrir þeim sjálfum þannig að einnig þarf að tryggja samræmingu og eftirlit með náminu.