131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Eyðing minka og refa.

97. mál
[15:20]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir að hreyfa málinu. Það er alveg ljóst að þingmenn hafa áhyggjur af því að þrátt fyrir að varið hafi verið töluverðum fjármunum í veiðar á mink og ref hefur það kannski ekki borið þann árangur sem við vildum. Sýnilegt er að ef verja á meiri fjármunum í þetta til að ná fleiri dýrum getur það orðið umtalsverður kostnaður.

Nefndin gerði tillögu um yfir 100 millj. á ári í þrjú ár og svo um 100 millj. næstu þrjú ár. Það eru því yfir 600 millj. sem um er að ræða í tillögum nefndarinnar. En spurt var um forgangsröðun á rannsóknum á móti veiðum. Það er reyndar misskilningur að meiri hluti nefndarinnar hafi ekki lagt til rannsóknir því af þessum 600–700 millj. var áætlað að u.þ.b. 54 millj. færu í rannsóknir. Hins vegar var faglegur ágreiningur af hendi fulltrúa Náttúrufræðistofnunar um hvort það væri í raun og veru gerlegt að svo miklum fjármunum sem ætlað var að verja til veiða færu í það á móti því sem hann var að leggja áherslu á, að rannsóknirnar væru undirstaðan og ættu að hafa forgang.

En ég tek undir að þetta eru mikilvæg mál sem við þurfum að taka á.