131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:24]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra er ráðherra sveitarstjórnarmála og ég held að öllum sé ljóst að hinn alvarlegi hnútur í kjaradeilunni sem hér er til umræðu hvílir á erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Hag þeirra þarf að bæta áður en hægt er að vænta þess að viðunandi lausn náist í deilunni.

Ég held að öllum hafi verið það ljóst að ríkisstjórnin hafði í hendi sér að leysa þessa deilu með því að koma með afdráttarlausa yfirlýsingu um að tekjustofnar sveitarfélaganna yrðu styrktir þannig að sveitarfélögin hefðu fjármagn til að greiða kennurum sínum og öðrum starfsmönnum þokkalega góð laun.

Þess vegna spyr ég ráðherra: Er að vænta yfirlýsinga í þá veruna að fjárhagur sveitarfélaganna verði styrktur (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að ganga inn í það ferli sem nú hefur verið boðað með væntingum um árangur?