131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:43]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur þingmannsins kemur mér afskaplega mikið á óvart. Það er nú þannig með okkur þingmenn í kjördæmum utan Reykjavíkur að við förum mjög mikið um kjördæmin og hittum sveitarstjórnir og auk þess er mjög stutt síðan fjármálaráðstefna sveitarfélaga var. Öll sveitarfélög hafa sýnt fram á hve tekjur þeirra hafa verið að dragast saman á meðan verkefni hafa stóraukist og auðvitað eðlilega hjá sveitarfélögum eins og hjá ríkinu og annars staðar þyngist kostnaður við hvern einstakan þátt við breytingar. Af því að mikil þensla er út af aðgerðum ríkisins, ég tala nú ekki um ef verðbólga fer í 5% þá geta menn nú bara ímyndað sér hvaða áhrif það muni hafa, líka á útgjöld sveitarfélaga.

Þessi staðhæfing kemur mér mjög á óvart vegna þess að hún stangast algjörlega á við það sem sveitarfélög hafa verið að bera á borð. Algjörlega. Ég er ekki manneskja sem held því fram að það eigi að kalla: ríkið, ríkið í hvert skipti sem eitthvað er að gerast. En þetta var svo stórt mál og mikill einhugur um það að mínu mati að flytja grunnskólann og einhugur um að flytja það sem við köllum nærverkefni yfir til sveitarfélaganna af því það er betra. Það verður betri vinna. Það er betur gert, en það kostar gjarnan meira.

Miðað við hvernig málin hafa þróast á milli ríkis og sveitarfélaga þá hafa þau alltaf eingöngu mælt grunnskólann, mælt hvað hann kostar og hvað megi gera ráð fyrir að hafi verið vanreiknað. Þau hafa aldrei horft á raunveruleikann sem fólst í að flytja verkefnin yfir. Sveitarfélögin hafa farið illa út úr þessu og eru treg til að gera meira.