131. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:44]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er fátt ef nokkuð sem bendir til þess að deiluaðilar í þessu alvarlega máli muni ná saman, ekki á þessu ári og guð má vita hvenær á næsta ári. Það ríkir með öðrum orðum algjört neyðarástand í grunnskólum landsins.

Það frumvarp sem hér er til afgreiðslu gengur út á það að setja gerðardóm, reyna að höggva á þennan hnút og finna nýja nálgun í þessu máli í því skyni að ná niðurstöðu.

Með þeim breytingum sem hv. allsherjarnefnd hefur kynnt er gengið mjög til móts við þær óskir sem deiluaðilar hafa viðrað, frestur er styttur, en umfram allt skiptir máli í þessu að viðsemjendur geta og eiga lag á því að setjast niður og ná saman án aðkomu gerðardóms. Það er undir þeim komið. Ef það ekki gengur er það gerðardómur sem á að finna lausn.

Um leið er líka rétt að senda út ákall til annarra hópa að una þeirri niðurstöðu sem vonandi fæst í þessu mikilvæga máli fyrir kennara. Ég sendi enn einu sinni út það ákall til annarra hópa að una þeirri niðurstöðu en umfram allt til viðsemjenda sjálfra að finna lausn á þessu máli. Ég segi já.