131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[15:30]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki þörf á að flytja langa ræðu um þetta mál við 1. umr. enda er þetta í annað sinn sem mælt er fyrir því á Alþingi. Ég vil eingöngu fagna því að komin er ný og mun greinarbetri greinargerð með frumvarpinu. Dr. Pétur M. Jónasson hefur verið fenginn af umhverfisráðuneytinu til að skrifa eða endurnýja greinargerðina sem birt var með frumvarpinu í fyrra enda var sú greinargerð komin nokkuð til ára sinna. Hér getur að líta greinargerð með skýringarmyndum sem er alveg til fyrirmyndar og ég verð að segja eins og er að mér hefur ekki gefist tími enn til að lesa hana frá orði til orðs. En það verður gert að sjálfsögðu í tengslum við meðferð málsins í umhverfisnefnd því að Pétur M. Jónasson býr yfir einstökum fróðleik um Þingvallavatn og vatnasvið. Um það vitna skrif hans og bækur um þessi mál og ég veit að hv. umhverfisnefnd á eftir að fræðast mikið við yfirferð þessa máls.

Gagnrýnisatriðin eða gagnrýnisrödd mín er sú sama í sjálfu sér og í fyrra. Hún lýtur eingöngu að því að forræði þjóðgarðsins á Þingvöllum skuli vera eins og nú er, þ.e. að þjóðgarðurinn skuli í sjálfu sér heyra undir forsætisráðuneytið en ekki umhverfisráðuneytið. Ég hafði um það langt mál í umræðum á Alþingi á síðasta ári þegar lögin um þjóðgarðinn voru endurnýjuð og þjóðgarðurinn stækkaður að mér hefði fundist eðlilegt að færa forræði hans undir umhverfisráðuneytið. Mér finnst eðlilegt að stjórnsýsla þjóðgarða og friðlýstra svæða sé öll með einu og sama mótinu en ekki sé verið að skipta upp stjórnsýslunni með þjóðgörðunum að óþörfu, en það hefur mér einmitt fundist að sé verið að gera í þessu tilfelli og jafnvel að í deiglunni sé að brjóta enn meira upp stjórnsýslu þjóðgarða í landinu. Ég tel að friðlýst svæði og þjóðgarðar á Íslandi stæðu sterkari að vígi ef þeir heyrðu allir sem einn undir umhverfisráðuneytið og lytu þannig sömu stjórnsýslu. Ég tel það veikja stjórnsýslu þjóðgarðanna að brjóta upp og skipta þeim á milli ráðuneyta. En þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar fjallar auðvitað ekki um það, heldur verndun vatnsins sjálfs og vatnasviðs þess sem er gífurlega nauðsynlegt að verði vel fyrir komið því eins og kemur fram í frumvarpinu er um framtíðarneysluvatnssvæði höfuðborgarsvæðisins að ræða og sannarlega kominn tími til að við tökum þetta mál föstum tökum.

Eins og frumvarpið kemur fyrir, í nokkuð mörgum greinum, þá sýnist mér horft vítt yfir sviðið og ég sé ekki annað en að hugsað sé fyrir öllu því sem maður sér í fljótu bragði að þurfi að hugsa til. Ég vil því einungis lýsa ánægju minni með að þetta mál skuli komið fram á nýjan leik. Ég tel að umhverfisnefnd eigi fyrir höndum afar fróðlega og góða vinnu fyrir þetta frumvarp og hlakka til að takast á við hana. Ég er ekki annað en ánægð með þetta frumvarp í sjálfu sér.