131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[15:54]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér að ég hygg í annað sinn stjórnarfrumvarp til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Frumvarpið var síðast til umræðu á hinu háa Alþingi í apríl á þessu ári, var vísað til nefndar en komst ekki lengra og er því lagt fram aftur nú á 131. löggjafarþingi.

Ég sé að frumvarpið er nánast óbreytt frá því í vor, reyndar með einni undantekningu, dagsektarákvæði hafa verið hækkuð. Þar fyrir utan er hér á ferð sama frumvarp og lagt var fram í apríl.

Frumvarpinu var vísað til nefndar eins og ég sagði áðan. Umsögnum um frumvarpið var skilað inn og þar kom fram þó nokkur gagnrýni, m.a. gagnrýni sveitarfélaga á svæðinu sem þótti fram hjá sér gengið við gerð frumvarpsins, að þau hefðu ekki verið höfð nægilega með í ráðum. Jarðeigendur við Þingvallavatn eru einnig mjög gagnrýnir á frumvarpið og telja í raun og veru að það sé óþarft. Þeir telja að sú löggjöf sem þegar er fyrir hendi varðandi hollustuhætti og mengunarvarnir, um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlög og náttúruverndarlög eigi í raun og veru að duga til að vernda Þingvallavatn og vatnasvið þess. Því sé algjör óþarfi að færa þetta vald undir valdsvið umhverfisráðherra. Þeir benda líka á að það sé miklu eðlilegra að sveitarstjórnirnar á svæðinu haldi utan um þessi mál í staðinn fyrir að stjórnun á þeim sé flutt til yfirvaldsins í Reykjavík sem þeir benda á að hafi ekki alltaf höndlað málefni og náttúruvernd Þingvalla á fullnægjandi og velheppnaðan hátt ef svo má segja.

Ég flutti ræður um þetta mál í vor og sé ekki ástæðu til að fara að endurtaka það sem ég sagði þá. Ég vil þó aðeins benda á að í 4. gr. frumvarpsins er sagt:

„Vernda skal lífríki Þingvallavatns og gæta þess að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikjuafbrigða og urriðastofna sem nú lifa í vatninu.“

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem var hér í pontu á undan mér kom einmitt inn á málefni Þingvallaurriðans sem er afskaplega merkilegur fiskstofn. Þessi fiskstofn hefur því miður átt nokkuð undir högg að sækja á undanförnum áratugum og ástæðan er sú að þar var reist virkjun árið 1960, svokölluð Steingrímsstöð, sem leiddi til þess að Efra-Sogi var lokað fyrir urriðanum. Urriðinn er þannig fiskstofn að hann þarf að komast í rennandi vatn til að geta hrygnt og seiði hans alast upp í rennandi vatni, þó að urriðinn eyði síðan síðari lífsskeiðum sínum og uppvaxtarárum gjarnan í stöðuvötnum. Þessu útfalli Þingvallavatns var lokað með stíflugerð. Ég er alveg sannfærður um að þarna hafi verið unnið mjög alvarlegt umhverfisslys sem ég tel að okkur sé hreinlega skylt að bæta og það er mín bjargfasta skoðun að leggja beri þessa virkjun niður. Það ber að leggja niður Steingrímsstöð, fjarlægja stífluna og endurreisa riðstöðvar urriðans og færa Efra-Sog aftur til upprunalegs horfs.

Þessi stöð, Steingrímsstöð, er lítil. Hún skilar ekki það miklu að henni megi ekki fórna til þess að færa náttúrunni til baka það sem við tókum frá henni fyrir rúmlega 40 árum. Það væri til mikils að vinna að gera þetta. Við mundum endurreisa urriðastofninn á ný og í raun og veru sýna fram á að þrátt fyrir að við förum út í virkjanaframkvæmdir er til nokkuð sem heitir afturkræfar virkjanaframkvæmdir. Við getum fært náttúruna aftur til vegs og virðingar á ný ef okkur hugnast svo, þó svo að við förum út í framkvæmdir eins og þessa, þ.e. Steingrímsstöð, framkvæmd sem í dag hefði aldrei nokkurn tímann verið leyfð.

Þetta er að ég hygg eitt alvarlegasta inngripið sem við höfum gert í náttúrufar og vistfræði Þingvallavatns. Ég vil líka nota tækifærið til að minna á það að þetta mál, þ.e. hvernig við getum hjálpað Þingvallaurriðanum á nýjan leik, hefur margoft verið rætt í sölum hins háa Alþingis á undanförnum árum. Hér var í fyrsta sinn flutt þingsályktunartillaga árið 1992 og einn af flutningsmönnum hennar var hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hún náði ekki í gegnum þingið þá en 1998 var sú þingsályktunartillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, ef ég man rétt, þingsályktun um endurreisn Þingvallaurriðans. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

, ,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns.“

Þessa þingsályktunartillögu dagaði hreinlega uppi og ég held að ekkert hafi orðið úr henni, ég held að ríkisstjórnin hafi ekki tekið neitt einasta mark á þeirri þingsályktun sem sætir að sjálfsögðu mjög mikilli furðu vegna þess að tveir af flutningsmönnum með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni voru þá hv. þm. sem hafa núna um nokkurra ára skeið verið ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, þ.e. hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson og hæstv. sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen.

Ég ætla svo sem ekki að hafa orð mín miklu fleiri um þetta frumvarp. Það verður fróðlegt að fylgjast með vegferð þess í gegnum nefnd þingsins og síðan í gegnum Alþingi í vetur. Ég vænti þess að það fái afgreiðslu á þessum vetri og ég mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með þeim umsögnum sem koma inn og því hvernig málinu reiðir af.

Ég vil enn á ný ítreka að verði frumvarpið að lögum er hiklaust næsta skrefið, einmitt til að fara eftir 4. gr. þessa frumvarps um verndun lífríkis Þingvallavatns og því að gæta þess að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum fiskstofna sem nú lifa í vatninu, að rífa upp stífluna í Efra-Sogi og leggja niður þá virkjun þannig að okkur takist þá að bæta tjónið sem við ollum því miður fyrir 40 árum.